131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[16:50]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að það var ákveðið samkomulag í gangi með að fresta umræðunni um Ríkisútvarpið fram yfir páska. Við það samkomulag hef ég algerlega staðið. Þá lá líka m.a. fyrir frumvarp Samfylkingarinnar og mér skilst líka þingsályktunartillaga Frjálslynda flokksins þannig að það lágu fyrir nokkur þingmál önnur um Ríkisútvarpið (ÖJ: … ekki að svara spurningunni?) þannig að mér finnst mjög óeðlilegt hvernig þetta mál er sett fram. Mér finnst menn ekki ná alveg að uppfylla samkomulagið eins og hv. þingmaður setur málið fram. Mér finnst menn ekki vera að uppfylla það samkomulag sem gert hefur verið og þá sátt sem í rauninni hefur verið um málið og allan þann undirbúning sem fjölmiðlamálið hefur fengið.

Síðan er það hitt, og ég undirstrika það, að varðandi núverandi starfsmenn Ríkisútvarpsins verður það haft að leiðarljósi að réttindi þeirra munu ekki skerðast. Allt mun verða gert til að menn fari að lögum varðandi tilflutning á bæði starfsmönnum og réttindi þeirra. (ÖJ: En réttindi … verða skert.)