131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[16:55]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. menntamálaráðherra bendir á. Það eru ákveðnir snertifletir á milli tillagna eða hugmyndanna sem koma fram í skýrslu fjölmiðlanefndar og í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra. En það eru líka ákveðnir hlutir þar sem skarast og stangast verulega á.

Það sem ég hef verið að reyna að orða hér er það að ef við eigum að horfa heildstætt á þessi mál er alveg eðlilegt að Ríkisútvarpið sem flaggskip í fjölmiðlaflóru Íslands heyri á einhvern hátt til því landslagi sem einkamiðlarnir þurfa að starfa í. Þess vegna hefði mér fundist svo rakið að hæstv. menntamálaráðherra fæli þessari fjölmiðlanefnd að vinna heildstæðar tillögur en ekki að undanskilja Ríkisútvarpið, jafnvel þó að vinnan hafi verið komin eitthvað á veg inni í ráðuneyti.

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að hæstv. menntamálaráðherra ætlar ekki að upplýsa okkur um það hér hverjir sömdu þetta frumvarp, og hún svarar heldur ekki spurningunni: Hvers vegna? Hvers vegna var ekki víðsýnin sú að setja málið inn í fjölmiðlanefndina? (Forseti hringir.) Svarið er eingöngu það að vinnan hafi verið komin svo langt á veg.