131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[16:57]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hefði frekar talið að eftir allar utandagskrárumræður síðustu ára og allar uppákomur varðandi Ríkisútvarpið væru menn í ræðustól fagnandi því að við erum loksins farin að ræða frumvarp til laga til breytinga á Ríkisútvarpinu. Ég hefði frekar haldið að það væri tónninn sem ætti að vera sleginn hér en að fjargviðrast yfir því hvort fjölmiðlanefndin ætti að fá Ríkisútvarpið til meðferðar eða ekki.

Sú vinna var langt komin og ég tel einmitt frumvarpið í dag og umræðuna um hana sýna okkur að við erum að taka fyrstu skrefin til móts við þær tillögur og ábendingar sem fjölmiðlanefndin setur fram í sinni ágætu skýrslu. Menn ættu frekar að líta á málin frá því sjónarhorni og vera í fagnaðargírnum en ekki í önugheitagírnum.