131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:04]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í upphafi ræðu um þetta frumvarp hæstv. menntamálaráðherra er ekki annað viðeigandi en minnast á þau vinnubrögð sem þar hafa verið höfð í frammi og vekja athygli á því að þau eru í allt öðrum gír, þannig að gripið sé til líkingamáls sjálfs ráðherrans, en þau vinnubrögð sem við hrósuðum sem mest í dag, sem voru vinnubrögð fjölmiðlanefndarinnar nýju. Þau eru í önugheitagír og þau eru í leynimakksgír.

Það er ljóst að ekkert samráð hefur verið haft við gerð þessa frumvarps, hvorki pólitískt samráð né faglegt samráð. Það er vont. Almennt er það vont, en sérstaklega er það vont í þessu máli vegna þess að Ríkisútvarpið er eign almennings og það skiptir öllu að hafa sem flesta með þegar verið er að gera breytingar á Ríkisútvarpinu eða undirbúa framtíð þess. Ríkisútvarpið þarf fjárhagslegan rekstrargrundvöll en það þarf líka samfélagslegan rekstrargrundvöll. Sá rekstrargrundvöllur hygg ég að sé samsettur úr þremur pöllum. Í fyrsta lagi úr sæmilegri pólitískri samstöðu um hlutverk Ríkisútvarpsins og tilveru þess, í öðru lagi úr stuðningi almennings sem lítur á Ríkisútvarpið sem sitt útvarp, sem sína eign, sem vin og þjón, og í þriðja lagi úr viðurkenndri skipan sem fulltrúar og forráðamenn markaðsstöðvanna sætta sig við, því viðurkennda hlutverki Ríkisútvarpsins sem þeir sætta sig við. Það er úr þessum þremur þáttum sem ég hygg að framtíð Ríkisútvarpsins sé spunnin.

Það vekur athygli að menntamálaráðherra hæstv. eða þeir sem á vegum menntamálaráðuneytisins — eins og stendur fremur ósmekklega í greinargerð frumvarpsins vegna þess að menntamálaráðuneytið er auðvitað ekki til sem framkvæmdaraðili heldur er það skrifstofa ráðherra og þarf oft að benda ráðherrum á að hafa þetta orðalag rétt — þeir sem hafa samið frumvarpið hafa ekki leitað samkomulags, ekki leitað pólitískrar samstöðu um málið nema í hinum stjórnarflokknum, ekki leitað skoðana almennings á málinu og reynt að búa í haginn fyrir stuðning almennings við þessar breytingar og ekki leitað álits forsvarsmanna markaðsstöðvanna í þessu efni. Ég endurtek það sem sagt var í fyrri umræðu af hálfu okkar samfylkingarmanna að við lítum á þetta mál, þó að við fögnum niðurstöðum fjölmiðlanefndarinnar nýju, sem raunverulegan prófstein, mælikvarða á sáttarvilja ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans í fjölmiðlamálunum yfir höfuð. Hér er þetta frumvarp hins vegar til umræðu sem stjórnarflokkarnir standa að og við skulum prófa það, við skulum setja það undir mælistikuna.

Hvaða spurning er það eftir nýlega viðburði á Ríkisútvarpinu og í samfélaginu sem frumvarpið þarf að standast? Sú spurning er auðvitað: Gæti fréttastjóramálið gerst aftur eftir að þetta frumvarp er orðið að lögum? Gæti það gerst að útvarpsstjóri tæki þá ákvörðun að ganga fram hjá fjölda hæfra umsækjenda um mikilvæga stöðu vegna pólitísks þrýstings frá ríkisstjórnarmeirihluta í stjórn Ríkisútvarpsins? Já, svo sannarlega gæti það gerst aftur. Tillagan um stjórnarhætti í frumvarpinu gerir ráð fyrir að ríkisstjórnarmeirihluti haldi þar áfram og það sem meira er, sá ríkisstjórnarmeirihluti á að hafa ráð útvarpsstjóra í höndum sér því að hann bæði ræður hann og getur rekið hann. Ef ekki er þeim mun meiri bógur í þeim sem leika hlutverk útvarpsstjóra eða útvarpsráðsmeirihlutamanna eru jafnvel meiri líkur en áður á því að fréttastjóramálið geti gerst aftur því samkvæmt frumvarpinu gilda hvorki stjórnsýslulög né upplýsingalög um þetta nýja fyrirtæki. Í RÚV sf. getur fréttastjóramálið þess vegna gerst oft á dag og það versta við það er að það getur gerst oft á dag jafnvel án þess að nokkur viti af því utan fyrirtækisins.

Bara þetta dæmi segir okkur að það frumvarp sem hér liggur fyrir er gallað og það þarf á verulegri hvíld að halda og þegar við bætast aðrir gallar á því verður niðurstaðan sú að frumvarpið eigi fyrst og fremst að skoðast sem hugmynd meðal hugmynda og verða eitt þeirra gagna sem ný nefnd, nýr samráðshópur um málefni Ríkisútvarpsins fer yfir auk tillagna sem hér hafa verið nefndar; þingsályktunartillögu okkar samfylkingarmanna, frumvarps Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingsályktunartillögu ágætrar frá Frjálslynda flokknum og þeirra skýrslna sem fyrir liggja, t.d. frá Starfsmannasamtökum RÚV frá 1999 sem enn er í fullu gildi, útvarpslagaskýrslu nefndar menntamálaráðherra frá 1996 sem er um margt merkileg þó að ég sé ekki sammála henni í öllum atriðum, fjárhagsúttekt þeirri sem ég held að menntamálaráðherra hafi átt við í ræðu sinni og gerð var annaðhvort 2001 eða 2002, greinargerð Þorsteins Þorsteinssonar markaðsstjóra, hygg ég að hann sé, frá því í fyrra um fjármögnun Ríkisútvarpsins o.s.frv. Enginn þeirra jákvæðu þátta sem vissulega er að finna í frumvarpinu er svo brýnn að hann megi ekki bíða um stund, en ég vek athygli á því að breytingar á tengslum Ríkisútvarpsins og Sinfóníunnar eru hins vegar þess eðlis að það mætti afgreiða slíkar breytingar á vorþinginu án þess að öðru yrði breytt í bili í lagagrunni Ríkisútvarpsins.

Ég vonast til þess, forseti, að fá síðar í umræðunni tækifæri til að bera saman nánar en nú er hægt stefnu okkar samfylkingarmanna, eins og hún kemur t.d. fram í þingsályktunartillögu okkar um Ríkisútvarpið í máli 400, og stefnu stjórnarinnar eins og hún birtist í þessu frumvarpi. En ég hlýt að sýna menntamálaráðherra hæstv. þá virðingu, þó hún sé ekki í salnum að sinni, að fara áður í gegnum nokkur efnisatriði í frumvarpi hennar. Ég vil taka fram að tímans vegna og verkaskiptingar okkar félaga í Samfylkingunni læt ég fjármögnunarþáttinn að mestu eiga sig og bíð þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir taki hann fyrir á eftir.

Þá er að hefja máls á því að ég held að gallarnir á þessu frumvarpi séu einkum þríþættir. Í fyrsta lagi varða þeir það sem frumvarpið segir um hlutverk Ríkisútvarpsins, í öðru lagi varða þeir þá formbreytingu sem frumvarpinu er ætlað að gera á Ríkisútvarpinu og í þriðja lagi varða þeir stjórnarhætti og skipulag á Ríkisútvarpinu.

Fyrsta þáttinn verðum við að skoða vel og hann er kannski einna mikilvægastur vegna þess að til að ráðast í breytingar á Ríkisútvarpinu, sem vissulega eru þarfar, þurfum við að hafa á hreinu til hvers Ríkisútvarpið er. Svar mitt og okkar samfylkingarmanna er það að Ríkisútvarpið sé núna fyrst og fremst almannaútvarp á markaði þar sem aðrar útvarpsstöðvar eru fyrir hendi og eiga að vera fyrir hendi.

Við vitum nokkuð vel hvað það þýðir að vera almannaútvarp. Um það má m.a. lesa í þingsályktunartillögu okkar samfylkingarmanna þar sem m.a. eru rakin aðalatriðin í Prag-samþykktinni frá 1994, að auki í McKinsey-skýrslunni sem fylgir okkar plaggi og um þetta er einnig fjallað í nýju fjölmiðlaskýrslunni auk annarra gagna sem ég hef sum þegar nefnt. Í örstuttu máli er almannaútvarp það útvarp sem lítur á sig sem forustuafl á ljósvakavettvangi, ekki sem keppinaut einkafyrirtækja á markaði. Það stefnir að fjölbreytni og fjölræði en ekki að því að ýta öðrum burt af markaðnum, enda er það sjálft sterkasta aflið gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar, auðs og valda í fjölmiðlum. Almannaútvarpið leitast við að þjóna samfélagi sínu, vera viðmiðun allrar þjóðarinnar og spegill hennar. Almannaútvarp leggur áherslu á fjölbreytt dagskrárefni óháð því hvort það þykir áhugavert fyrir auglýsendur eða kostendur. Almannaútvarp er bandamaður innlendra framleiðenda og listamanna. Þetta er mjög mikilvægt.

Í raun hefur Ríkisútvarpinu ekki verið markaður rammi eða hlutverk frá afnámi einkaleyfisins árið 1985. Fyrsta verk okkar þegar við komum að Ríkisútvarpinu er að skilgreina þetta hlutverk. Það eigum við að gera áður en við komum að stjórnarháttunum, áður en við komum að fjármögnuninni og áður en menn segja álit sitt á þeirri sífelldu landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins, flokks hæstv. menntamálaráðherra, að lausnin á málefnum Ríkisútvarpsins sé að selja Rás 2.

Galli frumvarpsins númer eitt er að þetta er alls ekki gert. Að vísu eru heilir 18 liðir í 2. gr. með þessum merkilega formála, með leyfi forseta: „Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:“ eins og verið sé að kynna til sögu margföldunartöfluna eða boðorðin tíu eða eitthvað sem allir kunna, en síðan kemur svo almenn upptalning að inn í hana falla nokkurn veginn allar þrjár sjónvarpsstöðvarnar hér, a.m.k. ef Skjár 1 kæmi sér upp fréttastofu, og flestar útlendar markaðsstöðvar sem ég þekki til.

Það er kannski ástæða til að benda sérstaklega á lið 10 af hinum 18 til dæmis um það hversu víð skilgreiningin er. Hún er svo víð að hún hefur í raun ekkert innihald, en skilgreining 10 um hvað almannaútvarp er hljóðar svo, með leyfi forseta: „Að veita alla þá þjónustu sem unnt er með tækni útvarpsins og þjóðinni má að gagni koma.“

Ríkisútvarpinu er í frumvarpinu að því er virðist ekki ætlað að verða almannaútvarp með þeim alþjóðlegu skilgreiningum og íslensku sérkennum sem slíkt útvarp á að hafa, heldur eins konar ríkismarkaðsstöð sem að vísu lítur á það sem gæluverkefni að sinna íslenskri framleiðslu þegar aðstæður leyfa. Hæstv. menntamálaráðherra svarar þeirri gagnrýni sem þegar er fram komin á þetta með því að segja að almannaútvarpshlutverkið verði betur skilgreint í þeim samningum sem hún hyggst gera, og menntamálaráðherrar framtíðarinnar, við útvarpið vegna þess að það sé svo erfitt að skilgreina þetta og þetta sé svo margbreytilegt eftir tímanum. Það er það ekki. Fyrir liggur ágæt skilgreining á þessu og það er hægt að marka Ríkisútvarpinu sinn rétta bás með því að setja slíka skilgreiningu í lög. Hæstv. menntamálaráðherra virðist vera að segja að hún ætli að nota samningana, sem væntanlega fjalla um upphæð fjármögnunar líka, sem eins konar valdatæki, valdatæki sitt og menntamálaráðherra framtíðarinnar til þess að ráðherraræðið yfir Ríkisútvarpinu haldi áfram og þeir missi ekki spón úr aski sínum. Það á að gera með því móti að hafa skilgreininguna sem allra víðasta og semja síðan við Ríkisútvarpið um peninga gegn því að Ríkisútvarpið uppfylli ákveðið hlutverk.

Á meðan þessu fer fram um hlutverkaskilgreininguna eru nýja fyrirtækinu gefnar heimildir í 5. og 6. gr. til næstum ótakmarkaðra umsvifa við dagskrárgerð og ýmiss konar aðra starfsemi, að því er virðist í fullri samkeppni við markaðsstöðvarnar og önnur fyrirtæki á sviði fjölmiðlunar, fjarskipta og margmiðlunar. Gert er ráð fyrir auglýsingum og kostun áfram, það er engin stefna um það, engar takmarkanir. Það er enginn að tala um að dauðhreinsa RÚV gagnvart auglýsingum og kostun. Hins vegar þarf að móta stefnu um það hver hlutur þeirra tekna er hjá Ríkisútvarpinu þannig að starfsemin sé ekki háð þeim tekjuleiðum eins og nú er. Á undanförnum áratug hafa tekjurnar numið fjórðungi til þriðjungi af tekjum Ríkisútvarpsins. Það hefur gerst samfara því að fjárveitingar með afnotagjaldsákvörðun hafa verið notaðar þannig að kreppt er að Ríkisútvarpinu þannig að það þarf að sækja sífellt meira inn á hinn grimma samkeppnismarkað í þessu efni.

Þetta á ekki að vera svo. Það eru tvær ástæður til þess. Annars vegar vegna Ríkisútvarpsins til þess að dagskráin miðist við að þjóna hlustendum og áhorfendum, eigendunum, almenningi, en sé ekki miðuð við að geta selt auglýsendum aðgang að markhópum. Hins vegar einfaldlega til þess að markaðsstöðvarnar, sem auðvitað hafa sinn metnað en miðast að lokum við rekstrar- og hagnaðarsjónarmið, geti róið í þokkalegum friði á sín eðlilegu tekjumið. Ég bendi á greinargerð með þingsályktunartillögu okkar því þar erum við með ýmsar færar leiðir til sátta og málamiðlunar á næstu árum.

Samkvæmt frumvarpinu virðist Ríkisútvarpið eiga að keppa eins og hver önnur stöð á markaði með forskoti sem felst í ríkisstuðningi, hvort sem hann er í formi afnotagjalda eða nefskatts eða einhverra annarra leiða. Það fær fullar heimildir til að stofna ný fyrirtæki eða gerast hluthafi í öðrum og á að halda áfram að vera stærsti aðilinn á grimmilegum markaði auglýsinga og kostunar. Þetta hefur verið gagnrýnt úr öllum áttum. Stuðningsmenn Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps gagnrýna þetta vegna þess að þeir vilja betra útvarp og umhyggjumenn markaðsstöðvanna gagnrýna þetta líka vegna þess að í framtíðarmyndinni er ekki endilega pláss fyrir aðrar stöðvar en Ríkisútvarpið. Það hlýtur að vera sérstaklega lærdómsríkt fyrir hæstv. menntamálaráðherra og aðra sjálfstæðismenn að ekki einungis forstöðumenn Stöðvar 2 og Skjás 1 hafa gagnrýnt þetta, heldur líka frjálshyggjumaðurinn Óli Björn Kárason með sína löngu reynslu í blaðamennsku og miklu þekkingu á viðskiptastöðunni í íslenskri fjölmiðlun.

Í öðru lagi er það sameignarfélagið. Ég ætla að fara hratt yfir þá sögu. Ég tel að full ástæða kunni að vera til þess að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins af ýmsum ástæðum, sumum þeim sem hæstv. menntamálaráðherra taldi upp. Það er hins vegar eins og ég hef áður nefnt gríðarlegur galli að um RÚV sf. eigi ekki að gilda upplýsingalög og stjórnsýslulög. Vissulega verður Ríkisútvarpið að hafa svigrúm í rekstri, ráðningum og innkaupum en Ríkisútvarpið á líka að vera almannaútvarp. Þar á ekki að vera neinn feluleikur um rekstur og ráðstafanir, um ráðningar og viðskipti. Þetta verður að liggja fyrir með þeim einu takmörkunum sem brýnir viðskiptahagsmunir krefjast um skamman tíma.

Í þriðja lagi eru það skipulag og stjórnarhættir. Ég ætla að nefna strax kostinn í frumvarpinu á því sviði. Hann er auðvitað sá að það gerir ráð fyrir miklu skýrari verkaskiptingu en nú er milli útvarpsráðs annars vegar, útvarpsstjóra og starfsliðsins hins vegar. Ég get haldið talsverðar ræður um verkaskiptinguna og vandræðaganginn í kringum hana eftir setu mína í þessu skrýtna ráði. Það á auðvitað að vera þannig, ég tek undir það með frumvarpinu og hef sagt það áður en frumvarpið kom til, að slík ráð eða stjórn fylgist fyrst og fremst með rekstrinum en útvarpsstjórinn og menn hans sjái um bæði dagskrá og ráðningar. Einhverjar reglur verða þó að gilda um ráðningarvald útvarpsstjóra og það er eðlilegt að kveða á um að slíkar reglur séu a.m.k. til í lögum um Ríkisútvarpið út á hvað sem þau annars ganga.

Málamiðlun um sameignarformið milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins virðist vera sú að Framsóknarflokkurinn fékk þetta orð í sinn hlut og síðan ákvæðið um að ekki mætti selja fyrirtækið nema með leyfi Alþingis, en Sjálfstæðisflokkurinn fékk allt svipmót venjulegs hlutafélags í gegn. Hugmyndaflugið hefur a.m.k. ekki verið meira en svo að í frumvarpinu er Ríkisútvarpið fært í stakk venjulegs hlutafélags en gallinn er sá að hlutafélagsformið hentar Ríkisútvarpinu sem almannaútvarpi ákaflega illa. Ef meiningin er hins vegar sú að Ríkisútvarpið sé venjuleg ljósvakastöð, venjulegt samkeppnisfyrirtæki sem ríkið á, það sé eini munurinn á því og öðrum útvarpsstöðvum, þá gengur þetta upp. Markmiðið er í orði kveðnu, samanber ræðu hæstv. menntamálaráðherra, að minnka pólitísk afskipti af útvarpinu.

En hvað gerist? Útvarpsráðið er kosið á þingi og með meiri hluta ríkisstjórnar hverju sinni. Það er kosið á hverju ári. Flokkarnir geta skipt um fulltrúa árlega og ráðið ræður útvarpsstjóra og getur líka rekið hann hvenær sem vera skal.

Við þurfum umfram allt að losna við hin beinu pólitísku afskipti sem felast í flokksvaldinu í útvarpsráði og flokksvaldi útvarpsstjóra. Þetta má hugsa sér með margvíslegum hætti. Einfaldasta leiðin til að bæta úr hér væri hugmynd sem er ofan úr Ríkisútvarpi að bæta við tveimur fulltrúum starfsmanna í annaðhvort núverandi útvarpsráð eða þá stjórn sem rætt er um í frumvarpinu. Með því móti myndast ekki sjálfkrafa ríkisstjórnarmeirihluti í ráðinu sem varað hefur verið við m.a. í Evróputilmælum, samanber grein Páls Þórhallssonar í Morgunblaðinu í fyrra sem var mjög tíðlesin í fjölmiðlaumræðunni í fyrravor. Það væri um leið skref til atvinnulýðræðis á Ríkisútvarpinu. Ef menn setjast yfir málið í alvöru er sjálfsagt að kanna aðrar leiðir og freistandi að skoða fyrirkomulagið hjá virtum stöðvum eins og t.d. BBC.

Það er líka augljóst að fyrirkomulagið sem frumvarpið leggur til um ráðningu útvarpsstjóra er gallað. Útvarpsstjóri þarf að hafa skýrt umboð og hann verður að geta stjórnað fyrirtæki sínu án sífelldra afskipta útvarpsráðs.

Forseti. Þessi skipan mála um útvarpsráð og útvarpsstjóra er eitt skref fram á við með skýrari verkaskiptingu og síðan tvö skref aftur á bak.

Að lokum þetta. Hæstv. menntamálaráðherra sagði í lokaorðum sínum í ræðunni áðan að hún tengdi málið við skýrslu fjölmiðlanefndar og ég tek undir það. Við þurfum að vinna þetta miklu betur og við verðum að gera það á svipaðan hátt og fjölmiðlanefndin hin síðari gerði, lýðræðislega og í samráði við allt samfélagið. Það er leiðin til þess að okkur takist í sameiningu, ef samstaða er um það á annað borð, að skapa Ríkisútvarpið sem öflugt og sjálfstætt almannaútvarp.