131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:57]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Eitt af því fáa sem ég sé jákvætt við þetta frumvarp er betri verkaskipting útvarpsstjóra og hans manna annars vegar og hins vegar hins nýja útvarpsráðs vegna þess að útvarpsráðið skiptir sér fyrst og fremst af rekstri, samkvæmt reglum sem geta verið umdeilanlegar, en láta dagskrána og ráðningar í hendur útvarpsstjóra nema hvað varðar ráðningu útvarpsstjóra sjálfs, sem ég ætla ekki að fara út í hér.

Hins vegar stingur e-liðurinn mjög í augu. Hverjum er sú stjórn sem hér um ræðir skipuð? Hún verður skipuð, ef hæstv. menntamálaráðherra fær fram vilja sinn, ríkisstjórnarmeirihlutamönnum hverju sinni. Á hún að semja reglur um fréttaflutning og gefa þær út? Og hún á ekki bara að hafa löggjafarvald í því efni, svo maður dragi upp hliðstæðurnar við stjórnkerfið, heldur á hún líka að hafa dómsvaldið. Hún á að sjá til þess að reglunum sé fylgt.

Ég vek athygli á að þessi undarlegi e-liður í 9. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir því að útvarpsráð hafi meiri afskipti af málefnum kjarnadeildar Ríkisútvarpsins eða tveggja kjarnadeilda þess, sem eru fréttastofurnar, heldur en útvarpsráðið nú. Í dag er útvarpsráði ekki gert að semja slíkar reglur, hvað þá að halda uppi einhverjum dómstól um að þeim sé fylgt. Núna er þetta á vegum fréttastofunnar. Það er fréttastjórinn, yfirmaður hvorrar fréttastofu um sig, sem sér til að þeim reglum sé fylgt og útvarpsstjóri fylgist auðvitað með því að reglum sé fylgt í útvarpinu öllu.

En hér á að færa þetta yfir í hið nýja útvarpsráð þar sem ríkisstjórnarmeirihlutinn ríkir og hann á sérstaklega að gæta þess að um fréttir gildi ákveðnar reglur sem hann setur sjálfur. Hvernig stendur á þessu, hvernig getur þingmaðurinn varið þennan lið í greininni?