131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[18:25]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að fjalla um þetta frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. og einstök efnisatriði sem þar koma fram. Þegar tíminn er skammtaður er auðvitað ekki hægt að víkja að öllum þeim atriðum sem kannski er ástæða til að víkja að. Ég mun þó í ræðu minni á eftir ræðu koma að þeim atriðum sem ég tel að skipti mestu máli á þessu stigi umræðunnar.

Áður en ég geri það vil ég taka fram vegna umræðunnar almennt að ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi, raunar í mörg ár, að það sé ekki hlutverk ríkisvaldsins og ríkisins að reka fjölmiðla og skiptir þá engu máli hvort um er að ræða sjónvarps- eða útvarpsstöðvar eða að gefa út dagblöð. Ég tel einfaldlega að þátttaka ríkisins í fyrirtækjarekstri, ég tala nú ekki um á samkeppnismarkaði, sé óeðlileg og eigi ekki að eiga sér stað. Það eru meginsjónarmið mín varðandi fjölmiðlana í landinu og þar á meðal Ríkisútvarpið.

Ég hef talað fyrir þessum sjónarmiðum áður á Alþingi, raunar margoft, og var á sínum tíma einn flutningsmanna frumvarps sem við lögðum fram saman, ég og hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Birgir Ármannsson. Það frumvarp kvað á um einkavæðingu Ríkisútvarpsins og hafði það að markmiði að koma á frjálsri samkeppni á fjölmiðlamarkaði en jafnframt það að efla innlenda dagskrárgerð í landinu. Við lögðum frumvarpið fram á sínum tíma sem málamiðlun við andstæð sjónarmið hvað varðar fjölmiðlun á Íslandi. Á þeim tíma virtist ekki vera pólitískur vilji til að fara þá leið sem við lögðum upp með í því frumvarpi, þrátt fyrir að maður hafi auðvitað fundið fyrir því á síðustu mánuðum og kannski síðustu vikum fyrst og fremst að það hefur reynst aukinn og meiri og meiri stuðningur við þau sjónarmið sem við höfðum talað fyrir, ekki síst í ljósi síðustu atburða á Ríkisútvarpinu. Ég get t.d. nefnt að það voru nú tíðindi í síðustu Gallup-könnun, ef ég man rétt, að fimmtungur þjóðarinnar var okkur sammála um að ríkið ætti ekki að standa í atvinnurekstri sem þessum.

Ég taldi rétt að taka þetta fram í upphafi máls míns og tel mikilvægt að þessi sjónarmið komi fram áður en lengra er haldið og ég fer að fjalla um frumvarpið um Ríkisútvarpið sf., að þetta séu meginsjónarmið mín hvað varðar fjölmiðlun á Íslandi og þátttöku ríkisins í fyrirtækjarekstri á samkeppnismarkaði.

Ef við víkjum að frumvarpinu og efni þess hlýtur maður náttúrlega í ljósi þess sem ég hef áður sagt að meta frumvarpið og stuðning sinn við það með hliðsjón af núverandi rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins.

Ég hef áður sagt og sagði það síðast í ræðu á hinu háa Alþingi þann 14. mars að, með leyfi forseta:

„Að mínu mati hefur rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins, eignarhald þess og stjórnskipulag gjörsamlega gengið sér til húðar. Það er barn síns tíma sem verður að breyta.“

Þau orð standa. Ég er þeirrar skoðunar að rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins hafi algjörlega gengið sér til húðar og nauðsynlegt sé að gera á því breytingar. Þegar maður vegur og metur saman þá tvo kosti sem fyrir liggja, annars vegar núverandi fyrirkomulag og hins vegar það fyrirkomulag sem frumvarpið mælir fyrir um tel ég að frumvarpið feli í sér framför hvað varðar starfsemi Ríkisútvarpsins frá því sem nú er. Ég tel reyndar að menn hefðu átt að stíga þau skref sem hér eru stigin mun fyrr en raun varð á.

Það kemur kannski ekki á óvart að ég er líka þeirrar skoðunar að menn hefðu átt að ganga lengra en frumvarpið mælir fyrir um til að koma til móts við þau sjónarmið sem ég rakti áðan og hef talað fyrir árum saman.

Mig langar, frú forseti, að víkja fyrst að þeim kostum sem ég tel að frumvarpið hafi og síðar í ræðunni mun ég gera athugasemdir við nokkrar greinar frumvarpsins. En ég verð að segja að ég tel að með hinu nýja stjórnskipulagi Ríkisútvarpsins sf. séu menn að stíga skref í rétta átt og þær reglur koma fram í IV. kafla frumvarpsins.

Meginbreytingarnar eru náttúrlega þær að útvarpsráð eins og við þekkjum það í dag er lagt af og þess í stað er sett á stjórn yfir Ríkisútvarpið sf. Eins og fram hefur komið í umræðunni er starfssvið stjórnarinnar ekki ólíkt starfssviði stjórna hlutafélaga og einkahlutafélaga, þ.e. stjórnin ræður sér framkvæmdastjóra, sem í þessu tilviki kallast útvarpsstjóri. Stjórnin tekur líka ákvarðanir hvað varðar ýmis atriði er lúta að fjárhag stofnunarinnar og varðandi lántökur og aðrar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins. Stjórninni er eins og áður sagði falið að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum og samþykkja fjárhagsáætlanir fyrir fyrirtækið.

Þetta er náttúrlega gjörbreytt hlutverk yfirstjórnar fyrirtækisins frá því sem nú er. Útvarpsráð hefur haft með mannaráðningar að gera innan stofnunarinnar sem hafa verið mjög umdeildar. Þar fyrir utan hefur útvarpsráð, sem er eins og kunnugt er skipað ýmsum fulltrúum stjórnmálaflokkanna, haft með dagskrá stofnunarinnar að gera. Ég tel að með frumvarpinu séu menn að stíga skref frá pólitískum afskiptum af Ríkisútvarpinu og það tel ég gott.

Að sama skapi tel ég að hið nýja fyrirkomulag muni gera það að verkum að hinn nýi útvarpsstjóri, sem mun ráða starfsmenn Ríkisútvarpsins sf., muni hafa tækifæri á grundvelli frumvarpsins til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru innan Ríkisútvarpsins, bæði hvað varðar stjórnskipulag stofnunarinnar og til að standa að rekstrarlegu hagræði.

Mig langar í þessu sambandi, af því að ég var að víkja að ákvæðum 9. gr. laganna, að bera blak af hv. þm. Merði Árnasyni, sem vék að e-lið greinarinnar, sem ég hef ekki vikið að í ræðu minni. Þar segir að hlutverk stjórnar sé að gefa út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í útvarpi, þar á meðal auglýsingatíma, og gæta þess að reglum sé fylgt.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að ákvæðið er ekki sérstaklega vel skilgreint í greinargerð með frumvarpinu og kannski óljóst hvert innihald þess er. Við í menntamálanefnd, sem munum fá málið til umfjöllunar, hljótum að fara yfir þetta og skoða ákvæðið í ljósi annarra sjónarmiða og reglna sem fram koma í frumvarpinu, ekki síst þeirrar að útvarpsstjóri verður yfirmaður og framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins og mun hafa með höndum dagskrárgerð og allan almennan rekstur og þá þjónustu sem Ríkisútvarpið mun bjóða upp á í framtíðinni.

Svo ég komi því á framfæri skil ég regluna þannig, öfugt við hv. þingmann, að hér sé um að ræða reglur sem mæli fyrir um að stjórnin eigi að setja eða samþykkja einhvers konar ytri ramma um fréttir, hvenær þær eru fluttar og sagðar en ekki hvernig þær eru sagðar. Það er ekki skilningur minn á ákvæði frumvarpsins að útvarpsstjóri stundi einhverja ritskoðun gagnvart fréttastofum, alls ekki.

Að sama skapi get ég ímyndað mér það og við munum fara yfir það við meðferð málsins að stjórn hins nýja félags muni hafa heimildir til að setja, ja, leyfum okkur að segja vanhæfisreglur t.d. fyrir fréttamennina sem mundu mæla fyrir um það að fréttamenn sem ættu hagsmuna að gæta varðandi einstök mál gætu ekki flutt fréttir af þeim, almennar vanhæfisreglur sem ættu að leiða til þess að fréttastofan yrði sjálfstæðari og trúverðugri. Ég held að við höfum séð það á síðustu dögum að það er ekki beint til þess fallið að skapa traust um fréttastofuna þegar fréttamenn flytja fréttir af eigin hagsmunamálum. Ég tel að í þeim reglum sem lúta að e-lið 9. gr. væri hægt að setja vanhæfisreglur til að koma í veg yfir að hlutir eins og þeir sem við höfum horft upp á á síðustu vikum endurtaki sig.

En nóg um stjórn Ríkisútvarpsins sf. og útvarpsstjórann. Mig langar að víkja að öðrum atriðum sem fram koma í frumvarpinu. Þau eru þrjú sem ég tel rétt að gera athugasemd við við umræðuna.

Í fyrsta lagi segir í 1. gr. frumvarpsins:

„Ríkisútvarpið sf. er sameignarfélag í eigu íslenska ríkisins.“

Þetta er sú niðurstaða sem stjórnarflokkarnir komust að, að reka fyrirtækið á sameignarfélagsformi. Ég hefði talið eðlilegra, fyrst menn voru að ákveða að stíga þetta skref, að reka fyrirtækið á hlutafélagsformi eða einkahlutafélagsformi. Ég gæti sett á langar ræðu um kosti einkahlutafélags- eða hlutafélagsformsins umfram sameignarfélagsformið, en ég ætla ekki að gera það. Ég bendi hins vegar á að það er innbyrðis ósamræmi í því að kveða á um að félagið skuli vera sameignarfélag en í eigu eins aðila. Það er ákveðið ósamræmi í því. (Gripið fram í.)

Ég tel að við ættum að skoða það við meðferð málsins hvort hugsanlega væri rétt að breyta rekstrarforminu í einkahlutafélagsform og líta til reynslunnar. Það er ekki tilviljun, hv. þingmaður, að þegar menn hefja rekstur á Íslandi flykkjast menn í hlutafélagaskrá og stofna þar einkahlutafélög eða hlutafélög en ekki sameignarfélög, við þekkjum það og það hlýtur að vera ástæða fyrir því. Við eigum, tel ég, að láta reynsluna kenna okkur hvað þetta varðar.

Í öðru lagi vil ég víkja að ákvæðum 3. gr. Ég tel að sú skilgreining sem þar kemur fram á hugtakinu „útvarpsþjónusta í almannaþágu“ sé of víðtæk. Ef hún er skoðuð og skýrð samkvæmt orðanna hljóðan verður ekki annað séð en að hinu nýja félagi verði heimilt að gera hvað sem fyrirtækinu eða félaginu sýnist, eins og segir í 10. lið, „að veita alla þá þjónustu sem unnt er með tækni útvarpsins og þjóðinni má koma að gagni“.

Það má líka benda á 14. lið greinarinnar sem segir að undir þetta ákvæði falli, með leyfi forseta:

„Að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að tilgangi félagsins verði náð, svo sem ritað mál, hljómplötur, hljóðsnældur, geisladiska, myndbönd og margmiðlunarefni.“

Maður hlýtur að spyrja sig í ljósi skilgreiningarinnar: Er ekki hætta á því, verði frumvarpið að lögum eins og það er lagt fram hér, að Ríkisútvarpið geti í náinni framtíð, þegar t.d. stjórnarandstöðuflokkarnir hafa komist í ríkisstjórn, farið í harða samkeppni við plötuútgefendur og aðra aðila á þeim markaði? Ég tel að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því.

Í 18. tölulið 3. gr. segir að undir þetta hugtak falli: „Að gera hvaðeina sem stjórn félagsins telur óhjákvæmilegt eða stuðlar að því að tilgangi félagsins verði náð.“

Ég fæ ekki betur séð, frú forseti, en að sú víðtæka skilgreining sem fram kemur í 18 liðum heimili Ríkisútvarpinu sf. að gera hvað sem er. Ég tel að við ættum að taka hugtaksskilgreininguna til endurskoðunar og kanna hvort ekki megi þrengja hana þannig að Ríkisútvarpið sf., verði það rekið á sameignarfélagsforminu, einbeiti sér fyrst og fremst að þeirri kjarnastarfsemi sem ég hygg að flestir séu sammála um að Ríkisútvarpið eigi að sinna en sé ekki að einbeita sér að öðrum atriðum.

Í þriðja lagi, frú forseti, vil ég gera að umfjöllunarefni ákvæði III. kafla frumvarpsins, en þar er fjallað um aðra starfsemi sem Ríkisútvarpinu sf. verður heimilað að stunda.

Þar segir í 5. gr., með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið sf. skal kosta kapps um að hafa samvinnu við aðra aðila um dagskrárgerð og útsendingar.“

Í 6. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpinu sf. er heimilt að standa að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti, þar á meðal á sviði fjarskipta og margmiðlunar eða öðrum sviðum er fjölmiðlun tengjast. Getur félagið gert þetta hvort sem er innan eigin vébanda eða með því að standa að öðrum fyrirtækjum í þessu skyni sem félagið á eitt eða með öðrum aðilum.“

Með öðrum orðum verður félaginu heimilt að fjárfesta í öðrum félögum á nánast hvaða sviði sem er svo lengi sem það tengist hinum víðtæka tilgangi félagsins. Ég er ósköp hræddur um að þetta þýði að Ríkisútvarpið sf. geti jafnvel farið í samkeppni á grundvelli þessara ákvæða við kvikmyndagerðir, auglýsingastofur eða hverja sem er. Maður veltir því fyrir sér: Ef framtíðin mun leiða í ljós að útvarpssendingar muni fara fram í gegnum síma verður þá Ríkisútvarpinu sf. heimilað að stofna fjarskiptafyrirtæki til að sinna viðskiptavinum sínum? Þetta eru atriði sem við verðum að taka til skoðunar og við verðum að passa upp á það að ef menn á annað borð ætla að reka ríkisútvarp verði hlutverk þess ekki of víðtækt, heldur muni félagið fyrst og fremst einbeita sér að því að sinna kjarnaþjónustu þinni.

Ég get nefnt dæmi þar sem annað sameignarfélag á í hlut þar sem menn og stjórnendur þess hafa farið um víðan völl og sinnt kjarnastarfsemi sinni en farið út í ýmsa aðra starfsemi sem tengist kannski ekki upprunalegum tilgangi félagsins. Þetta er sameignarfélagið Orkuveita Reykjavíkur, sem hefur hafið risarækjueldi og er stórtækt á fjarskiptamarkaðnum en kjarnastarfsemi þess félags er fyrst og fremst að selja heitt og kalt vatn og rafmagn. Það gerir félagið í skjóli mjög víðtækra heimilda sem kveðið er á um í lögum. Það er þróun sem ég hef ekki verið par hrifinn af og vil forðast að gerist. Ég veit ekki nema að það sama mundi gerast á fjölmiðlamarkaðnum ef þeir stjórnmálaflokkar sem standa að R-listanum kæmust einhvern tíma í ríkisstjórn og frumvarpið yrði að lögum eins og það er lagt fram hvað þetta atriði varðar.

Eins og ég segi og hef sagt og fram hefur komið í máli mínu, frú forseti, er ég náttúrlega í grunninn þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að reka fjölmiðil. En ég tel að þegar vegnir eru og metnir annars vegar kostir frumvarpsins og hins vegar það rekstrarform sem Ríkisútvarpið starfar við nú feli frumvarpið í sér mikla framför. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að við tökum ákveðna þætti frumvarpsins til athugunar og þá kannski sérstaklega atriðin er varða sameignarfélagsformið, hugtakið „útvarpsþjónusta í almannaþágu“ og heimildir Ríkisútvarpsins sf. til að standa í öðrum verkefnum.