131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[19:21]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega eru til ýmsar aðrar leiðir en sú sem hér hefur verið farin. Hv. þingmaður Mörður Árnason nefndi ýmsar leiðir í framsögu sinni áðan, m.a. þá leið sem hefur verið farin hjá BBC. Við ættum því vissulega að skoða þá leið.

Ég nefndi líka ákveðna hugmynd í dag, þ.e. að auka þátt starfsmanna í stjórn þessa fyrirtækis þannig að t.d. eigi tveir fulltrúar starfsmanna sæti í þessari fimm manna stjórn. Hv. þingmaður tjáði sig ekki um það. Vonandi gerir hann það síðar í þessari umræðu.

Ég held líka að það megi auka vægi starfsmanna almennt við ráðningu útvarpsstjóra, m.a. með því að atkvæði starfsmanna RÚV hefðu ákveðið vægi við ráðningu útvarpsstjóra á móti stjórn RÚV. Það held ég að mundi tryggja ákveðið lýðræði í þessari stofnun miklu meira og koma í veg fyrir hið pólitíska vald sem vissulega er til staðar og hv. þingmaður viðurkennir reyndar í sínu máli að verði til staðar þrátt fyrir þessa breytingu. Þó með ákveðnum hætti sé verið að reyna að draga úr pólitískri íhlutun þá er það enn til staðar að stjórnin er kosin hér og það eru hinir pólitísku flokkar sem kjósa þessa stjórn. Meiri hlutinn er skipaður af meiri hlutanum á Alþingi. Ég held því fram að ítaka pólitísku flokkanna sem eru við stjórnvölinn hverju sinni muni gæta við ráðningu útvarpsstjóra. Það er mjög óæskilegt. Ef við settum okkur bara það markmið núna fram á haustið að skipa þverpólitíska nefnd sem hefði það markmið að reyna að losa alveg um hin pólitísku ítök og ef það væri virkilegur vilji fyrir hendi hjá stjórnarflokkunum til að gera það þá er ég sannfærð um að við fyndum ásættanlegar leiðir í því máli sem er miklu farsælla fyrir þessa (Forseti hringir.) stofnun en sú leið sem stjórnarflokkarnir ætla að fara.