131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:00]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra fylgdi máli sínu úr hlaði með því að vitna til ummæla menntamálanefndar á nefndaráliti sem á sínum tíma birtist í þingskjölum. Það nefndarálit var gefið út þegar við endurskoðuðum útvarpslög síðast. Þar mælti menntamálanefnd með samþykki útvarpslagafrumvarpsins en tók fram í nefndarálitinu að nauðsynlegt væri að endurskoða lagaákvæði um Ríkisútvarpið og endurmeta hlutverk þess í breyttu fjölmiðlaumhverfi og mun nefndin hafa lagt áherslu á að þeirri vinnu væri hraðað.

Herra forseti. Þetta er að sínu leyti rétt. Menntamálanefnd lagði áherslu á að þegar búið væri að taka ákvæðin um Ríkisútvarpið út úr útvarpslagafrumvarpinu væru þar eftir einhverjar slitrur af lögum sem ekki væri nóg að nefna nýju nafni, þ.e. lög um Ríkisútvarp, heldur yrði að endurskoða málin í heild sinni, og ég minnist þess að nefndin hafi óskað eftir að þeirri vinnu yrði hraðað. Það var ekkert um það í ósk nefndarinnar á þeim tíma að málið yrði unnið með þeim hætti sem hæstv. menntamálaráðherra hefur valið að vinna það. Ég er sannfærð um að sjónarmið menntamálanefndar á þeim tíma hefur verið það að náðst gæti víðtæk sátt um málefni Ríkisútvarpsins og endurnýjaða löggjöf um það.

Hæstv. menntamálaráðherra kýs að fara aðra leið. Hún lokar alla vinnuna inni í ráðuneyti sínu þar sem hún safnar saman einhverjum huldumönnum sem við höfum ekki enn fengið upplýst hverjir eru og þar er ákveðið að setja saman frumvarp um Ríkisútvarpið og koma með það hingað undir því yfirskini að menntamálanefnd Alþingis hafi óskað eftir að málið yrði unnið og því yrði hraðað.

Eftir að fjölmiðlanefnd menntamálaráðherra fór í gang komu strax fram óskir frá stjórnarandstöðuflokkunum um að Ríkisútvarpið og tillögur um það yrðu settar undir sama hatt, þ.e. að unnið yrði á sömu nótum í samráði til að sátt gæti náðst. Við teljum mikilvægt, eins og komið hefur fram í ræðum þingmanna, að sköpuð sé nauðsynleg sátt, jarðvegur sátta utan um Ríkisútvarpið ekki síður en utan um það umhverfi sem einkamiðlunum er ætlað að starfa í.

Eins og fram hefur komið hér, virðulegi forseti, hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram sjálfstætt frumvarp um Ríkisútvarpið. Það frumvarp gerir ekki ráð fyrir að rekstrarformi Ríkisútvarpsins verði breytt. Við erum þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi áfram að vera ríkisstofnun á þann hátt sem það hefur verið og við styðjum það ákveðnum rökum. Við sjáum ekkert í þeirri innihaldslitlu klisju hæstv. menntamálaráðherra og reyndar ýmissa fleiri að nauðsynlegt sé að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins til að auka sveigjanleika þess. Það hefur auðvitað komið í ljós að sá sveigjanleiki er kannski fyrst og síðast fólginn í því valdi sem stjórnendur gætu þá beitt til þess að reka starfsfólk og ráða að vild.

Það segir í greinargerð hæstv. menntamálaráðherra með frumvarpi þessu að stjórnendur í sameignarfélagi geti brugðist skjótar við breyttum markaðsaðstæðum og öðrum breytingum á aðstæðum heldur en stjórnendur ríkisstofnunar, og þar með ætti fyrirtækið að vera mun betur í stakk búið til þess að standast samkeppni og skila hagnaði.

Hæstv. forseti. Það hvernig málið er sett fram hér segir mér aðeins eitt. Það skiptir engu máli hvort þetta nýja félag yrði sett upp í hlutafélagaformi eða sameignarformi, gjörðin er söm. Það að stjórnarflokkarnir skyldu hafa komist að þeirri málamiðlun að rekstrarformið yrði sameignarfélag er í sjálfu sér undarleg niðurstaða og hún vekur furðu fleiri en mín. Ég rakst á grein í Viðskiptablaðinu fyrir skemmstu þar sem Sigríður Á. Andersen lögfræðingur, sem skrifar um þjóðmál fyrir Viðskiptablaðið, fjallar um frumvarpið og hún kallar það „frumvarp um ekki neitt“. Sigríður Á. Andersen segir í grein sinni í Viðskiptablaðinu, með leyfi forseta:

„Það kæmi manni ekki á óvart þó að framsóknarmenn hefðu velt því alvarlega fyrir sér að gera Ríkisútvarpið að samvinnufélagi. Að minnsta kosti er augljóst að þeir hafa róið að því öllum árum að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Á því getur svo sem verið eðlileg skýring, til dæmis sú að þeir hræðist hlutafélagaformið. Það er nefnilega auðvitað aðeins eitt markmið sem stjórnvöld eiga að hafa þegar ríkisfyrirtæki eða stofnanir eru gerðar að hlutafélagi og það er að selja hlutabréfin. Þessu markmiði geta menn svo verið sammála eða, eins og í tilfelli framsóknarmanna, ekki. Þeirra innlegg í málið, hugmyndin um sameignarfélagið RÚV, er hins vegar svo ómálefnaleg að það hvarflar að manni að hún sé bara komin til vegna sam-forskeytisins sem framsóknarmenn hafa löngum viljað kenna sig við.

Það er þó aukaatriði hvort stofnunin RÚV sé felld undir eitt félagsformið frekar en annað þó að vissulega sé það einkennilegt þegar stjórnvöld sjálf leggja til, með hugmyndum um sameignarfélag í eigu eins aðila, veigamikil frávik frá bæði almennri málvitund og eðli máls í lagalegum skilningi.“

Hæstv. forseti. Ég hef tilhneigingu til að vera sammála Sigríði Á. Andersen. Félagsformið skiptir ekkert höfuðmáli. Hér er Sjálfstæðisflokkurinn að ná fram þeim markmiðum sínum að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins — allt í lagi í einhverju millibilsástandi — í sameignarfélag. En verður ekki lítið mál að skutla því yfir í hlutafélagaform þegar vindar blása öðruvísi í ríkisstjórninni? Og hvað er langt í að það verði? Það er kannski bara stutt og þá verða þau markmið Sjálfstæðisflokksins að selja öll hlutabréf og hlutafélög í eigu ríkisins að veruleika. Hér er því á ferðinni dulbúin ósk sjálfstæðismanna um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Ég vara sannarlega við því að menn gleypi þetta hrátt þó að þetta heiti sameignarfélag.

Hvernig í ósköpunum láta menn sér detta í hug að stofna sameignarfélag sem á að vera í eigu eins aðila? Sameign hverra? Ríkisstjórnarinnar? Hér hafa menn verið að gera því skóna að ekki eigi að aflétta pólitískum ítökum í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég er sammála því. Það er ekki verið að létta pólitískum möguleikum og pólitískri íhlutun ríkisstjórnarinnar með þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Hér er sannarlega að mörgu að gæta og kannski að úlfurinn í sauðargærunni sé á ferli þegar öllu er á botninn hvolft.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill ekki breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins, sér raunar enga ástæðu til þess. Í frumvarpi okkar eru settar fram tillögur um grundvallarbreytingar á stjórnsýslu stofnunarinnar, tengslum hennar við Alþingi og framkvæmdarvaldið. Auk þess leggjum við til að afnotagjöldin í þeirri mynd sem þau nú tíðkast verði lögð niður. Ég fer hér í örstuttu máli, hæstv. forseti, yfir tillögur okkar þó að, eins og menn vita, að mál okkar sé ekki hér á dagskrá, en til þess að skýra meginsjónarmið okkar tel ég mig knúna til að gera örlitla grein fyrir meginhugmyndum okkar.

Við viljum að útvarpsráð verði lagt niður, en við viljum í þess stað sjá dagskrárráð sem fyrst og fremst muni sinna því hlutverki að sjá til þess að Ríkisútvarpið sinni lögbundnum skyldum sínum, veiti stofnuninni þannig faglegt og lýðræðislegt aðhald. Dagskrárráð okkar á ekki að hafa afskipti af innri stjórnsýslu Ríkisútvarpsins að öðru leyti en því að útvarpsstjóri skal jafnan skipaður með samþykki dagskrárráðsins. Síðan sjáum við fyrir okkur að ráðið byggi ekki á pólitískum valdahlutföllum heldur leggjum við til að við skipan þess verði reynt að tryggja aðkomu mismunandi viðhorfa í samfélaginu. Ekki verði skorið á tengsl Ríkisútvarpsins við Alþingi því að allir þingflokkar skulu samkvæmt hugmyndum okkar tilnefna fulltrúa í dagskrárráðið ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bandalagi listamanna og Neytendasamtökunum. Æðstu menn stjórnsýslu Ríkisútvarpsins munu líka eiga sæti í dagskrárráðinu auk að sjálfsögðu fulltrúa starfsmanna.

Hæstv. forseti. Við erum nefnilega ekki þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn, að ekki sé talað um alþingismenn, séu liðónýtir til að eiga sæti í stjórn stofnunar á borð við Ríkisútvarpið. Við teljum alþingismenn vera fullgilda í slíkri stjórn. Við erum jú einu sinni fulltrúar fólksins í landinu, kjörin af fólkinu í landinu til að sinna ákveðnum sjónarmiðum, ákveðnum málefnum sem við höfum lofað í frjálsum kosningum að sinna. Ég tel okkur því fullburðug til að sitja í stjórn stofnunar á borð við Ríkisútvarpið.

Hins vegar tel ég til vansa hvernig ríkisstjórnin hefur praktíserað það í gegnum árin að misbeita hinu pólitíska valdi sínu í stjórn stofnunarinnar. En látum ekki þá sem slíkt hafa gert koma óorði á alla kjörna fulltrúa þjóðarinnar. Það er varhugavert því að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar eiga fullt erindi þarna inn, það þarf bara að tryggja að þeir hafi ekki það meirihlutavald sem ríkisstjórnin hefur sóst eftir að hafa og eftir því sem virðist vera í hinu nýja frumvarpi sem hér liggur fyrir, ætlar að halda áfram að eiga tryggt.

En aftur, virðulegi forseti, að hugmyndum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varðandi framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins. Hugmyndir okkar ganga út á það að hún eigi að hafa ábyrgð á allri stjórnsýslu stofnunarinnar og að útvarpsstjóri verði samkvæmt okkar hugmyndum ábyrgur gagnvart framkvæmdastjórninni. Framkvæmdastjórnin yrði skipuð forsvarsmönnum deilda Ríkisútvarpsins auk fulltrúa starfsmanna, og útvarpsstjóri, í umboði framkvæmdastjórnarinnar, annaðist síðan ráðningu starfsmanna en þegar um er að ræða ráðningu þeirra sem annast dagskrárgerð skal ætíð byggt á samþykki framkvæmdastjórnarinnar.

Það er alveg ljóst að með þessum tillögum værum við að innleiða eða efla vald starfsmanna inni í stofnuninni og við teljum það vera lykilatriði. Við teljum það vera grundvallaratriði til að efla stofnunina að starfsfólkið eigi aðkomu að stjórninni og beri ábyrgð með þeim sem stjórna. Það er algert lykilatriði sem okkur finnst ekki vera tekið tillit til eða sinnt í þeim tillögum sem hæstv. menntamálaráðherra talar fyrir hér í dag.

Varðandi afnotagjöldin eru hugmyndir okkar þær að þau verði lögð niður í núverandi mynd en verði þess í stað tengd fasteignum og innheimt með fasteignagjöldum og þannig verði fasteignin eða íbúðar- og atvinnuhúsnæði stofn þessa gjalds. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði fyrir svipuðum hugmyndum áðan eða sagði okkur frá útfærslu á þessari hugmynd. Það sýnir okkur að það er einfalt og hagkvæmt að beita þessari aðferð. Ég lýsi því yfir fullum stuðningi við þær hugmyndir sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði hér fyrir og þakka henni fyrir að hafa sest niður og reiknað þetta á þeim nótum sem hún gerði, sem sýnir okkur fram á að þetta er ekki bara framkvæmanlegt heldur afar skynsamlegt og mun skynsamlegra en hugmyndirnar um nefskattinn sem hæstv. ráðherra talar fyrir. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er þess ekki fýsandi að rekstrarforminu verði breytt þó svo að við viljum sjá öflugar breytingar ganga í garð hvað þetta varðar.

Virðulegur forseti. Ræðutími okkar er ekki ótakmarkaður við 1. umr. en það er eitt atriði sem mig langar verulega til að nefna í þessu sambandi sem ég tel ekki vera rúm fyrir eða ekki hafa verið skoðað eða gert ráð fyrir í tillögum hæstv. menntamálaráðherra. Það er atriði sem mikið var fjallað um í vinnu fjölmiðlanefndarinnar og varðar dreifingu útvarps- og sjónvarpsefnis. Í þeim málum hafa orðið stórstígar framfarir og sérstaklega ber að nefna þar hina stafrænu tækni sem nú ryður sér til rúms. En þá er eðlilegt að spurt sé hver þáttur Ríkisútvarpsins hafi verið í stafrænu byltingunni hingað til. Ég veit satt að segja ekki til þess að hann hafi verið nokkur því að Ríkisútvarpið hefur ekki fengið neitt sérstakt umboð frá stjórnvöldum til að vera þar áhrifavaldur. Stofnuninni hefur þvert á móti verið synjað um þá fjármuni sem hún hefur óskað eftir í þeim efnum. Henni hefur ekki verið veitt neitt fjárhagslegt svigrúm til að taka af einhverri vigt þátt í þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram við innleiðingu hinnar stafrænu tækni. Ekki er að sjá í þessu frumvarpi að henni sé ætlað hlutverk á því sviði í nánustu framtíð.

Þess vegna spyr ég: Ætla stjórnvöld, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn Ríkisútvarpinu að þiggja allt sitt í þeim efnum úr hendi einkaaðila á markaði? Virðulegi forseti. Mér finnst það ekki ásættanlegt. Ég vil vekja athygli manna á því að það var einmitt þessi staða Ríkisútvarpsins sem skipti sköpum um tillögur fjölmiðlanefndarinnar varðandi flutningsrétt annars vegar og flutningsskyldu hins vegar. Það er alveg rétt sem haldið hefur verið fram hér í dag við þessa umræðu að reglurnar um flutningsrétt og flutningsskyldu eiga eftir að valda straumhvörfum í útbreiðslu fjölmiðla á Íslandi nái þær fram að ganga. Þær eiga að öllum líkindum eftir að tryggja dreifingu Ríkisútvarpsins um dreifiveitur hvaða einkaaðila sem er. En þær eiga þó ekki eftir að tryggja að dreifingin nái örugglega til allra landsmanna eða til sjómanna á hafi úti. Ríkisútvarpið hefur hlutverki að gegna í þessum efnum og allt heimsins svigrúm, svo notuð séu klisjukennd orð stjórnarþingmanna um breytt rekstrarform stofnunarinnar, mun ekki tryggja að Ríkisútvarpið geti sinnt öryggishlutverki sínu ef það á að vera upp á aðra komið með dreifingu.

Í dag á Ríkisútvarpið dreifikerfið sem dreifir því til næstum allra landsmanna. Síminn annast viðhald þess kerfis. Nú er í bígerð að selja Símann og ekki hef ég heyrt að menn hafi sérstakar áhyggjur af því hver taki við því hlutverki að annast viðhald og rekstur dreifikerfis Ríkisútvarpsins. Ég spyr, virðulegi forseti: Eru menn sáttir við að Ríkisútvarpið verði upp á náð og miskunn einkarekinna dreifiveitna komið með dreifingu dagskrár sinnar til landsmanna? Ég er það ekki. Ég treysti því að hæstv. menntamálaráðherra eyði nokkrum mínútum í að svara þessum spurningum mínum í síðari ræðu sinni.

Í þessu sambandi vil ég líka minna á að Póst- og fjarskiptastofnun var á sínum tíma falið að leiða undirbúningsvinnu við að koma á stafrænu sjónvarpi. Í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir 2003 kemur fram að undirbúningur hafi staðið mestallt það ár og markmiðið hafi verið að ná samkomulagi um dreifingu stafræns sjónvarps, samkomulagi um eina dreifileið en ekki margar, eitt dreifikerfi en ekki jafnmörg og miðlarnir sjálfir. Við vitum öll hvernig þessu lyktaði. Það náðist ekki samstaða. Þess vegna fóru Norðurljós af stað með Digital Ísland og þess vegna keypti Síminn Skjá einn. Norðurljós heita nú 365 ljósvakamiðlar og náðu þeir sem sagt forskotinu og ákváðu hvernig upphaf stafræns sjónvarps yrði háttað á Íslandi.

Ég tek það fram, virðulegi forseti, að ég er afar sátt við að geta nú notið þeirra gæða sem hin stafræna tækni býður upp á. En ég hefði viljað sjá vagninn dreginn af stjórnvöldum með þátttöku og í góðri sátt við aðila á markaði. Sú leið hefur verið farin í nágrannalöndum okkar en það hefur ekki verið gert án þess að kosta neinu til. Norðurlöndin hafa öll sett umtalsvert fé í að innleiða hina stafrænu tækni á undanförnum árum. Þar hafa stjórnvöld borið þá ábyrgð sem þeim ber í þessu sambandi en hér hafa stjórnvöld afsalað sér ábyrgðinni og látið markaðinn um að setja kúrsinn. Það er kannski rökrétt, slík er ofurtrú Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á vilja markaðarins.

Virðulegi forseti. Ég er ekki sama sinnis. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum ekki sama sinnis. Við viljum að stjórnvöld tryggi að hagkvæmar leiðir séu valdar við innleiðingu hinnar nýju tækni. Við viljum að stjórnvöld tryggi að skynsamlega sé tekið á málum svo við sitjum ekki uppi með fjölda einkarekinna dreifiveitna sem hver og ein telur sig þurfa að eiga efnisveitu og fer sínar leiðir við að koma efninu til heimilanna. Ef stjórnvöld taka ekki af skarið þá sitja neytendur uppi með fjölda afruglara við sjónvarpstækin sín og ótal fjarstýringar sem oftar en ekki eru flestar týndar. Við sjáum því fram á ófremdarástand í þessum málum ef fram heldur sem horfir. Þess vegna eru hugmyndir fjölmiðlanefndarinnar um flutningsskyldu og flutningsrétt byltingarkenndar. Þær gera ráð fyrir því að allar dreifiveitur verði að taka allt það efni sem vill fara inn á dreifiveiturnar þannig að efnisveiturnar geti bara ráðið því inn á hvaða dreifiveitur þær fara og sömuleiðis að dreifiveiturnar geti fengið að dreifa því efni sem dreifiveiturnar vilja fá að dreifa.

Ég held að menn verði að gefa gaum þessari hugmynd og það fyrr en seinna. Ég teldi eðlilegt að þessi hugmynd væri hreinlega inni í þeim hugmyndum um Ríkisútvarpið sem við ræðum hér. Svo er ekki. Ástæðan er sú að frumvarpið um Ríkisútvarpið var samið á vitlausum stað og vitlausum tíma. Það átti að semja það í samvinnu allra flokka. Það átti að semja það í svipaðri sátt og samvinnu og fjölmiðlanefndin samdi sínar hugmyndir og tillögur um einkamarkaðinn. (ÖJ: Þetta er enn þá hægt.) Hv. þm. Ögmundur Jónasson tilkynnir okkur það hér yfir salinn að það sé ennþá hægt.

Virðulegu forseti. Það er hægt. Vilji er allt sem þarf.

Nú óska ég eftir því náðarsamlegast að þetta frumvarp fari í menntamálanefnd, verði sent til umsagnar, en síðan verði tekin meðvituð ákvörðun um að bíða átekta. Sjáum hvaða umsagnir við fáum. Tökum síðan á þessu sameiginlega næsta haust (Forseti hringir.) og búum til virkilega gott frumvarp um Ríkisútvarpið.