131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:47]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvar hv. þingmanns. Hann spyr hvort grípa hefði átt fyrr til aðgerða gagnvart Ríkisútvarpinu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óviðeigandi að ríkisstofnanir eins og Ríkisútvarpið fari fram úr fjárlagaramma sínum. Þetta er algerlega fyrirsjáanlegur rekstur eins og ég hef áður sagt og stjórnendur Ríkisútvarpsins eiga að geta sniðið starfsemina algerlega eftir þeim peningum sem þeir hafa á milli handanna.

Varðandi það hvort stjórnendur eigi að sæta ábyrgð hefur það ekki tíðkast mjög mikið, en það eru hrein ákvæði í lögum til hvaða aðgerða eigi að grípa. Þó það hafi ekki farið hátt hafa stjórnendur sem sýnt hafa óábyrgð í meðferð fjármuna þurft að sæta ábyrgð og víkja.

Þó ég hafi setið í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili, í eitt og hálft ár, tel ég mig ekki hafa þá yfirsýn yfir rekstur Ríkisútvarpsins að ég geti sagt að farið hafi verið það langt fram yfir þau 4% sem yfirleitt er miðað við sem réttlæti að gripið sé til slíkra aðgerða hjá Ríkisútvarpinu og stjórnendum þess.

Almennt er ég þeirrar skoðunar að ríkisstofnanir eigi að halda sig innan ramma fjárlaga og sérstaklega eigi að vera hægt að gera kröfu til starfsemi eins og Ríkisútvarpsins þar sem er algerlega hægt að sjá fyrir hvernig hægt er að reka það innan þess fjárlagaramma sem það hefur.