131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:51]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er góður og gegn sjálfstæðismaður, það er alveg rétt.

Hv. þingmaður spyr hvort grípa þurfi til niðurskurðar ef frumvarpið verður að lögum. Með þeim rekstrargrundvelli sem er lagður núna undir Ríkisútvarpið með nefskatti mun það gefa starfseminni 2,5 milljarða í aðra hönd. Auglýsingatekjur hafa verið milli 800 og 900 millj. kr. á ári. Þetta er því umtalsvert fé og nánast jafnmikið, ef ég man rétt, og rekstur Háskóla Íslands og heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu kostar. Stofnunin hefur því töluvert fé á milli handanna.

Ég tel jafnframt að það rekstrarform sem tekið yrði upp gefi möguleika á mun meiri hagræðingu en núverandi rekstur gefur tilefni til. Ég held líka að það leiði til nýrrar hugsunar í rekstri Ríkisútvarpsins þannig að í meira mæli verði hægt að koma á samkeppni milli aðila um dagskrárgerð og leita hagræðingar með ýmsum hætti. Ég tel því að Ríkisútvarpið með því hlutverki sem því er ætlað sé fullsæmt af því fjármagni sem það hefur á milli handanna og ætti að gefa því möguleika á að standa virkilega undir þeirri ábyrgð sem Ríkisútvarpinu er lögð á herðar, sem er mjög mikil, að standa vörð um íslenska tungu, íslenska menningu og menningararfleifð okkar Íslendinga.

Ég hef ekki áhyggjur af því að ekki sé hægt að spila með peningana og fá jákvæða útkomu. Ég vænti þess að stjórnendur Ríkisútvarpsins með nýju rekstrarfyrirkomulagi leggi áherslu á að halda rekstrinum innan þess ramma sem þeim er skammtaður.