131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:55]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði að umtalsefni í byrjun ræðu minnar hvernig komið var fram við nýjan fréttastjóra Ríkisútvarpsins. Ég einskorðaði ekki gagnrýni mína við fréttastofuna, heldur líka við yfirmenn stofnunarinnar. Mér finnst þeir ekki hafa staðið sig gagnvart þessum manni. Mín persónulega skoðun er sú að gera hefði átt betur við þennan mann þegar hann hætti störfum. Ég tel að það hefði átt að gera samning við hann um starfslok. Hann var mættur til starfa og ég tel að útvarpið hefði verið fullsæmt af því að kveðja hann með öðrum hætti en gert var.

Eins og ég orðaði það í ræðu minni var setið um manninn þegar hann mætti til starfa, hann var leiddur til slátrunar og það var reitt til höggs. Honum voru skapaðar þær aðstæður sem á ekki að skapa neinum einasta manni á fyrsta degi í starfi, alveg sama hversu ósáttir menn eru við ráðningu viðkomandi. Manninum var sýndur hreinn og beinn dónaskapur og ég tel að stjórnendur stofnunarinnar hefðu verið menn að meiri, svo ég noti þeirra eigin orð, ef þeir hefðu kvatt hann með öðrum hætti en gert var, þó að honum hafi orðið á mistök.