131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:30]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þurfum að fá nánari lýsingar á þessu. Það sem helst hefur verið gagnrýnt varðandi rekstur og rekstrarform Ríkisútvarpsins eru tengsl útvarpsráðs við stofnunina. Það sem gert er með frumvarpinu er að í stað þess að efla tengsl þingsins á grundvelli viðhorfa er það gert á grundvelli valds. Það er fært undir meirihlutavald á Alþingi í ríkari mæli en áður hefur verið gert. Þar að auki eru réttindi starfsfólksins náttúrlega rýrð með frumvarpinu og öll stjórnsýslan sett á bak við lokuð tjöld.

Ég á afskaplega erfitt með að fá það heim og saman að þetta sé allt til þess fallið að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins. Það sem hefur gerst er að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, það var til orðið frumvarp um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins en síðan náði Framsóknarflokkurinn að klóra í bakkann og setja sf. í staðinn fyrir hf. Þetta er það sem hefur verið gert og (Forseti hringir.) afleiðingin er stórskert kjör starfsfólks Ríkisútvarpsins og virk staða þeirrar stofnunar.