131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:33]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði: „efla fjárhagslegt og faglegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins“. Þá klisju hef ég heyrt hvern þingmanninn éta upp eftir öðrum í hálft annað ár og japla á eins og hverju öðru tyggigúmmíi án þess að nokkurt innihald virðist fylgja. Við erum búin að fara yfir það í umræðunni að með þeim tillögum sem fyrir liggja er fjárhagur Ríkisútvarpsins rýrður. Í tillögunum felst ekkert aukið fé en þvert á móti munu 0,5 milljarðar í biðlaunarétti starfsmanna lenda á stofnuninni. Hér er því ekki verið að efla fjárhagslega stöðu útvarpsins heldur þvert á móti.

Þegar talað er um „hina faglegu“ hlýtur maður að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Hvar er hin fjárhagslega efling útvarpsins í tillögunum? Og í öðru lagi: Er hin faglega efling falin í því að setja svo valdamikla pólitíska stjórn yfir starfsemi útvarpsins eða sýnist hv. þingmanni að afskipti Alþingis af rekstri útvarpsins (Forseti hringir.) hafi til þessa verið sérlega fagleg eða til þess fallin að styrkja stofnunina faglega?