131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:42]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Merði Árnasyni að ýmsar leiðir eru færar t.d. varðandi fjármögnun Ríkisútvarpsins. Það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni að í tilteknu þingmáli sem við höfum bæði nefnt í dag, og ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar, er velt upp ýmsum möguleikum. Kostir og gallar þess að vera með afnotagjöldin eru raktir, að innheimta nefskatt og að hafa Ríkisútvarpið alfarið á fjárlögum, en það er engin afstaða tekin til neins af þeim liðum.

Í því stjórnarfrumvarpi sem hæstv. menntamálaráðherra mælti fyrir í dag liggur fyrir sú afstaða sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um að væri skásti kosturinn af öllum hinum slæmu kostum sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi, og það væri nefskatturinn. Ég þarf ekki að rifja upp alla þá óánægju sem hefur verið úti í samfélaginu með afnotagjöldin, bæði innheimtu þess og hvernig þau hafa komið við fólk auk þess sem menn geta nú horft á sjónvarp í öðrum miðlum en sjónvarpstæki.