131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:44]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skemmtilega spurt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal eins og hans er von og vísa. Hann innir mig eftir því hvert almennt álit hins almenna framsóknarmanns sé á Ríkisútvarpinu.

Ég ætla að svara honum í sömu einlægni og hann spurði. Ég hef heyrt framsóknarmenn sem árum saman hafa staðið dyggan vörð um Ríkisútvarpið og viljað efla það á allan hátt segja eftir umræður síðustu vikna: Það er kominn tími til að losa sig við þetta.

Ég tek fram að ég get ekki talað almennt af hálfu framsóknarmanna, ég hef heyrt tvo dygga stuðningsmenn eflds Ríkisútvarps hafa það á orði. Að öðru leyti treysti ég mér ekki, herra forseti, til að svara hv. þingmanni þegar hann spyr svona.