131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:05]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er næstum því skemmtilegt að hv. þm. Birgir Ármannsson sýndi í ræðu sinni í dag sömu pólitísku ríkisrekstrarnauðhyggjuna og hv. þm. Pétur Blöndal hefur gert í svipuðum umræðum að undanförnu. Þetta er svona svart/hvít frjálshyggjuhugsun sem er helst sambærileg við dólgamarxismann heitinn og felst í því að pólitísk afskipti og yfirráð af öllum stofnunum í almannaeigu séu sjálfsögð og eðlileg. Röksemdafærslan er nokkurn veginn svona: Ríkið á RÚV. Við eigum ríkið. Þar af leiðir að við eigum RÚV.

Þetta þarf ekki að vera svo. Það verða menn að gjöra svo vel að skilja. Ríkisútvarpið á ekki að vera eign ríkisins. Það á að vera almannaútvarp. Skilyrði þess að almannaútvarp geti verið til er það annars vegar að það sé sjálfstætt og hins vegar að það sé öflugt. Það að það sé sjálfstætt þýðir að það þarf að hafa í kringum sig eldveggi. Þetta er orð sem ég tek úr orðræðu markaðsstjóra Ríkisútvarpsins. Annars vegar þarf eldvegg gagnvart hættulegum viðskiptahagsmunum sem leita á, hins vegar eldvegg gagnvart hættulegum pólitískum afskiptum umfram þau sem felast í sjálfsagðri almennri stefnumótun á fjölmiðlavettvangi af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar.

Um viðskiptahagsmunina skiptir miklu máli að Ríkisútvarpið hafi trausta og örugga fjármögnun og það skiptir í öðru lagi miklu máli að það þurfi ekki að reiða sig á tekjur af grimmilegri samkeppni á markaði auglýsinga og kostunar, að þær tekjur séu í því hófi að þær skipti Ríkisútvarpið aldrei máli í ákvörðunum um dagskrárgerð og annað það sem almannaútvarpið varðar.

Um eldvegginn gagnvart pólitískum afskiptum eru ýmsir möguleikar. Það er alveg rétt að við samfylkingarmenn höfum ekki haldið fram neinum einum eða tveimur möguleikum í því efni. Við höfum viljað hafa það opið. En við höfum bent á ýmsa hér í þessari umræðu og í þingsályktunartillögu okkar og í fyrri umræðum okkar um málið. Við höfum bent á hlustendaþing. Við höfum bent á einhvers konar kjör útvarpsstjóra. Við tökum vel tillögum frá Frjálslynda flokknum, sem er gömul tillaga Kvennalistans reyndar, um einhvers konar akademíu sem sé einn liðurinn í stjórnskipulagi Ríkisútvarpsins. Mér þykir athyglisverð samlíking hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar hér í dag um háskólarektorinn sem kjörinn er reglulega og vandræðalaust uppi í háskóla. Ég tel að þegar menn setjast niður og athuga þetta í rólegheitum þá eigi þeir að taka ýmsar svona tillögur og kryfja þær til mergjar.

Þegar upp kemur stjórn Ríkisútvarpsins eins og hún er orðuð í frumvarpinu eða það útvarpsráð sem nú situr þá er líka hægt að laga það til eftir þessari hugsun. Við höfum bent á hér í dag að jafnvel sú litla viðbót sem fælist í því að tveir starfsmenn settust í þessa stjórn mundi gjörbreyta hlutverki stjórnarinnar og ýta burt þeim beinu pólitísku afskiptum sem við þekkjum úr núverandi útvarpsráði og núverandi skipulagi með bæði útvarpsráð og útvarpsstjóra, sem er ráðherraskipaður, og þeirri hættu sem blasir við í tillögum frumvarpsins um hina nýju stjórn Ríkisútvarpsins, um útvarpsráð hið meira.

Ef vilji er til að reisa þessa eldveggi, ef pólitískur vilji er til að ná utan um það mál, þá er það hægt. Umræðan um fjölmiðlaskýrsluna frá í dag sýnir ósköp einfaldlega að þetta er hægt. Ég vil líka endurtaka frá því áðan að það eru auðvitað ákveðin skilyrði, ákveðnar forsendur fyrir því að það sé hægt. Það eru þær forsendur að menn fylgi raunverulega hugmyndinni um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp. Það eru þær forsendur að menn séu tilbúnir að gefa því fjárhagslegan rekstrargrundvöll og það sem ég hef kallað samfélagslegan rekstrargrundvöll sem felst í fyrsta lagi í pólitískri samstöðu, í öðru lagi í því að Ríkisútvarpið sé raunveruleg þjóðareign og í þriðja lagi í því að málum sé þannig háttað að forstöðumenn markaðsstöðvanna viðurkenni tilvist Ríkisútvarpsins og það hlutverk sem það á að gegna.

Frumvarpið sem við erum að ræða núna er ekki í samræmi við þetta. Þar er gert ráð fyrir að áfram séu pólitísk afskipti ráðandi í Ríkisútvarpinu. Þar er gert ráð fyrir því að fyrirtækið sé lokað, að upplýsingalög og stjórnsýslulög gildi ekki lengur um þetta fyrirtæki, að almenningur og fulltrúar hans hafi ekki lengur þó þann aðgang að upplýsingum sem þeir hafa núna og að starfsmönnum sé torveldað að sækja sinn rétt eða að hafa þann rétt sem þeir eiga að hafa. Frumvarpið núna gerir ekki ráð fyrir því að hér sé um að ræða almannaútvarp sem starfar fyrir opnum tjöldum.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu núna ekki skilgreint hlutverk Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps. Menn hafa bent á það hér, bæði við samfylkingarmenn og aðrir stjórnarandstæðingar, hygg ég, og einnig fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umræðunni, sem er mjög merkilegt og ég benti reyndar á í fyrstu ræðu minni að þegar hefði gerst. Þó ég vilji ekki telja mann eins og Óla Björn Kárason beinlínis fulltrúa Sjálfstæðisflokksins þá er hann auðvitað í liði frjálshyggjumanna og tengdur flokknum.

Gagnrýni okkar hefur verið sú annars vegar að þetta hlutverk sé ekki skilgreint. Hins vegar gagnrýnum við auknar heimildir Ríkisútvarpsins sem almenns fyrirtækis sem starfi ósköp einfaldlega eins og hvert annað fyrirtæki í samkeppni við markaðsstöðvarnar. Þetta stóð ekki til.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafði það eftir Sigríði Andersen sem ég var að heyra í fyrsta sinni — ég les Viðskiptablaðið greinilega ekki nógu ört — að hér væri í raun frumvarp um ekki neitt. Það er að ýmsu leyti satt að það sé ekki um nokkurn skapaðan hlut. Lítið breytist í raun og veru í stjórnarháttum og skipulagi. Lítið breytist í raun og veru gagnvart annars vegar viðskiptahagsmunum og hins vegar pólitískum hagsmunum. Helstu breytingarnar eru tvenns konar. Annars vegar þær að lokað er á upplýsingar til almennings og fulltrúa hans um það sem gerist í þessu fyrirtæki og hins vegar að það eru auknar heimildir til að keppa við aðrar stöðvar á venjulegum markaðsgrunni. Báðar þessar breytingar tel ég neikvæðar. Ég spyr: Var það þetta sem stóð til? Var það þetta sem stóð til með því að stjórnarflokkarnir tengdu sig saman og ætluðu að búa til einhvers konar lausn á vanda Ríkisútvarpsins? Í raun er þetta skref út í keldu og verra en ekki neitt. Við eigum að líta á það gagnlega í þessu frumvarpi sem jákvæðar hugmyndir í þeim pakka sem við eigum nú að hafa samráð um að vinna úr. En að öðru leyti eigum við að líta á þetta frumvarp sem eins konar mistök.

Af því að um fjármögnunarþáttinn var spurt þá er það auðvitað þannig að nefskatturinn — það kemur í ljós í umræðunni — er engan veginn sannfærandi leið út úr vandræðunum í kringum afnotagjöldin. Jóhanna Sigurðardóttir hefur reifað þetta og hún hefur líka sett fram hugmynd að sínu leyti. Hún setur hana fram hér í hugmyndagrunninn og það væri fínt að fá álit menntamálaráðherra á þeirri hugmynd vegna þess að hún er vel hugsuð og rökrétt. Þá verð ég að segja um leið að hvaða leið sem valin er í fjármögnuninni þá verður hún að byggjast á því, samanber hinn pólitíska eldvegg, að langtímasamningur sé í gildi sem sé grunnur undir fjármögnun og undir stefnuna, að langtímasamningurinn gildi milli stjórnvalda, menntamálaráðherra og þingsins — hvernig sem því er nú háttað — og RÚV hins vegar. Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi hér fjögur ár. Ég vil ganga lengra. Hann þarf að ná yfir kjörtímabil. Hann þarf að gilda í sex til sjö ár og vera þannig háttað að allt þingið standi að honum og um hann sé pólitísk samstaða á hverjum tíma, samanber það sem hv. þm. Einar Karl Haraldsson sagði hér, þ.e. að í raun ætti að bera samning menntamálaráðherra undir þingið.

Ég vil svo aðeins ítreka ýmsar spurningar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, m.a. um upplýsingalög og stjórnsýslulög til menntamálaráðherra og ekki síður eina spurningu hennar sem er mjög athyglisverð. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bar þær upplýsingar hér í umræðuna frá yfirmönnum í menntamálaráðuneytinu að hér sé á síðu 20 kafli í athugasemdunum um 11. gr. sem sé umfram, sem séu leifar af gömlum texta, sem sagt leifar af tilraunum til þess að beita jöfnunaraðgerðum í nefskattinum sem ríkisstjórnin og hæstv. menntamálaráðherra eru hætt við. Ég held að þetta þurfi að koma fram og jafnframt það hvernig standi á þessum texta því hann vantar allan lagastuðning ef þetta er ekki svo. Ég verð að segja það bara að lokum að mistök af þessu tagi eru ekki til þess fallin að auka traust á þessu frumvarpi.