131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:22]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ekki von að hv. þingmaður hafi ekki haft áhyggjur. Það hafa einmitt verið pólitísku félagar hv. þm. Birgis Ármannssonar sem hafa haft þessi pólitísku afskipti og haft sig frammi í þeim.

Ég verð að segja æsingarlaust og í fullkomnum rólegheitum að við setjum fram þessa þingsályktunartillögu okkar af ásettu ráði. Við höfum í ríkisútvarpsumræðunni og fjölmiðlaumræðunni reyndar allri verið lokuð í ákveðnum deilum um mál sem varða ekki grundvallaratriði þó að þau séu mikilvæg. Þær deilur hafa verið: Eigum við að hafa þriðju rásina á sjónvarpinu? Á Rás 2 að vera til? Af hverju á að spila svona mikið popp? Á útvarpsráðið að gera þetta eða hitt? Og svo framvegis.

Við vorum ósköp einfaldlega að reyna að brjótast út úr þessari umræðu, sem er ekki frjó. Eins og ég segi þá varðar hún auðvitað mikilsverða hluti en hún er ekki frjó eða til að þoka Ríkisútvarpinu og fjölmiðlaumræðunni áfram. Þess vegna settumst við í Samfylkingunni niður, auðvitað með fjölda fólks, það er ekki eins og umræðan fari ekki fram utan flokkanna, og reyndum að finna út hver væru grundvallaratriðin í þessu máli.

Grundvallaratriðin eru nokkur. Þau eru:

Hlutverk Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps á markaði, sem nú er nýr, og þegar ég segi nýr þá meina ég eftir 1985. En það er stundum eins og áratugirnir líði í þingsalnum og í ráðuneytunum eins og ekkert sé og menn séu enn þá í sömu stellingum og áður. Við höfum verið að reyna að finna út úr þessu og reyna að setja forsendur, skilyrði fyrir þeim praktísku lausnum sem til greina koma. Við hefðum svo gjarnan viljað að aðrir stjórnmálaflokkar kæmu með okkur inn í þetta og höfum þess vegna passað okkur á því að negla okkur ekki á einstakar lausnir í þessum efnum heldur hafa einmitt það hlaðborð hugmynda sem er forsenda þess að menn nái saman um pólitíska niðurstöðu.