131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:25]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom fyrr í dag inn á það sem hann er á móti í þessu frumvarpi. Hann hefur ekki nefnt eina af þeim breytingum sem ég sé jákvæðar í þessu. Það er eiginlega það einasta sem ég sé jákvætt í þessu, þ.e. að starfsmenn RÚV eru ekki lengur opinberir starfsmenn. Hvað finnst hv. þingmanni um það?

Síðan ræddi hann heilmikið um útvarpsgjald og nefskatt og vildi sitt af hverju, að gerður yrði rekstrarsamningur við RÚV af hendi Alþingis, þ.e. Alþingi gerði rekstrarsamning við RÚV til sex, sjö ára.

Nú skulum við gefa okkur að hér sé afskaplega óvinsæl ríkisstjórn, kannski Samfylkingin eða eitthvað slíkt. Og RÚV mælir allt á móti henni með réttu, þetta er svo slæm ríkisstjórn að RÚV er á móti henni. Svo á að gera rekstrarsamning og þessi ríkisstjórn, sem er með meiri hluta væntanlega, sker það afskaplega mikið við nögl. Er það þetta sem hv. þingmaður vill?