131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:26]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil ekki beinlínis segja að ég fagni því, eins og hv. þm. Pétur Blöndal, að starfsmenn RÚV eigi ekki lengur að vera opinberir starfsmenn. Ég held hins vegar að þeir samningar og umgengnishættir sem tíðkast í opinbera geiranum eigi ekki vel við fjölmiðlafyrirtæki á borð við RÚV. Ég er þess vegna kannski meira sammála hv. þingmanni en hann heldur og æskir í þessu efni.

Þeir sem vinna á Ríkisútvarpinu eru yfirleitt ekki með sömu menntun og sömu reynslu og annars staðar í opinbera kerfinu heldur sækir Ríkisútvarpið starfsmenn sína á vettvang sem mótast í meginatriðum á einkamarkaði. Ég tel því að Ríkisútvarpið þurfi að fá meira svigrúm í þessu, hvort sem það gerist með formbreytingu í fyrirtækinu sjálfu eða yrði ósköp einfaldlega sett í þau lög sem nú gilda um Ríkisútvarpið.

Við megum ekki gleyma því að í lögunum sem nú gilda, í 2. eða 3. gr. þeirra, segir um Ríkisútvarpið að það sé sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Þetta mætti auðvitað hugsa sér að þróa áfram innan sjálfrar löggjafarinnar með því að gefa Ríkisútvarpinu alls konar rekstrarlegt og samningalegt svigrúm sem það telur sig skorta nú.

Um langtímasamninginn er auðvitað meining mín, með þeirri hugmynd að hann sé til sex eða sjö ára, að hann verði einmitt ekki viðfangsefni hverrar ríkisstjórnar, það sé ekki þannig að ríkisstjórnin líti svo á í pólitíkinni að það sé verkefni ríkisstjórnarinnar, lítils meiri hluta ríkisstjórnar, að gera þennan samning eftir sínu höfði heldur eigi að vera um hann almennt samkomulag. Þess vegna einmitt miðist hann ekki við kjörtímabil heldur við lengri tíma. Það er grunnurinn undir orðum mínum.