131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:28]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala mikið um pólitísk áhrif og allt slíkt. Finnst þeim óeðlilegt að þeir sem kosnir eru af þjóðinni hafi eftirlit með og ráðskist með eigur ríkisins, sem þeir stjórna fyrir hönd þjóðarinnar? Er svo slæmt að hafa pólitík?

Svo vildi ég spyrja hv. þingmann, hann talaði um að það ættu að vera tveir starfsmenn í stjórn RÚV: Finnst honum ekki nóg um að starfsmenn stjórni RÚV alfarið, eins og kom í ljós um daginn þegar þeir samþykktu vantraust á útvarpsstjóra, sem er óheyrilegt í sjálfu sér, að starfsmenn stofnunar samþykki vítur á forstjóra stofnunarinnar sem er ráðinn samkvæmt lögum? (Gripið fram í.) Hvernig fer það saman við réttindi og skyldur opinberra starfsmanna?

Síðan, þegar þeir eru búnir að flæma þann mann úr fyrirtækinu, sem hafði með lögum og með réttu verið ráðinn, með einelti, ræður sami útvarpsstjóri einn þeirra manna. Þá er allt fallið í ljúfa löð. Þá réðu þeir útvarpsstjóra aftur og ekki talað um vantraust meira.

Er ekki nóg, eins og er nú, að starfsmennirnir stjórni RÚV? Þetta ætti eiginlega að heita SÚV en ekki RÚV, Starfsmannaútvarpið en ekki Ríkisútvarpið.