131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:32]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Farið hefur verið vítt yfir sviðið í umræðunni í dag og sannarlega ekki vanþörf á. Ég treysti því að þessari umræðu verði haldið áfram í menntamálanefnd. Ég verð að lýsa því yfir að ég sakna hv. formanns menntamálanefndar, hv. þm. Gunnars I. Birgissonar, sem kemur til með að stýra umræðunni í nefndinni. Það hefði verið verulegur fengur að því að hafa hann hér með í 1. umr. Þó ekki væri nema að bara vita af honum í salnum hefði verið traustvekjandi fyrir þá umræðu sem á eftir að fara fram í nefndinni.

Eitt af því sem við þurfum að taka til verulegrar skoðunar eru þau rök sem styðja það að þjóðarútvarp á borð við Ríkisútvarpið sé til staðar. Í mínum huga eru sterkustu rökin fólgin í þeim skyldum sem Ríkisútvarpið hefur axlað samkvæmt lögum til þessa og samkvæmt hugmyndum hæstv. menntamálaráðherra kemur til með að þurfa að axla áfram, verði þær hugmyndir sem eru í 3. gr. frumvarpsins að veruleika.

Þá spyr maður sig: Eru þær hugmyndir, þær skyldur sem hæstv. menntamálaráðherra vill að hvíli á herðum Ríkisútvarpsins, nægilega vel skilgreindar í 3. gr. eins og hún lítur út í frumvarpinu og í skýringum sem koma fram með þeirri grein?

Í mínum huga verður að gera betur. Í mínum huga er orðalagið í þeirri grein um margt afar almennt og óljóst og hefur ekki í sér fólgna neina beina þýðingu, heldur má segja hugsjónir sem er kannski mjög erfitt að henda reiður á, sérstaklega þegar við förum að skoða þetta allt með tillit til t.d. fjármögnunar, með tilliti til þess á hvern hátt stofnuninni á að verða gert kleift að framkvæma þær hugmyndir sem koma fram í 3. gr.

Það er nánast sama hvar við berum niður í 3. gr. Ef við tökum 3. tölulið er hann svohljóðandi, með leyfi forseta, og fjallar um hluta af útvarpsþjónustu í almannaþágu sem feli í sér þessa töluliði:

„Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni. Beitt skal hverjum þeim tæknilegu aðferðum sem tiltækar eru hverju sinni, þar á meðal hvort sem er hliðrænum eða stafrænum aðferðum.“

Herra forseti. Ríkisútvarpið hefur haft vilja og metnað í gegnum tíðina til að gera nákvæmlega þetta og skyldur Ríkisútvarpsins samkvæmt núgildandi lögum eru að hluta til þessar. En hvað er það sem hæstv. menntamálaráðherra kallar efni sem „skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni“? Í mínum huga, og ég byggi það á málflutningi almennings sem hann lætur í ljósi t.d. í fjölmiðlum, í almennum umræðum, á fundum úti í bæ, í skoðanakönnunum, þá vill almenningur efla innlenda dagskrárgerð til muna.

Nú er svo komið að Ríkisútvarpið, sjónvarp getur varla búið til eða framleitt dagskrárþátt sem byggir á öðru en viðtali við einhverjar persónur. Það er í raun og veru dagskrárgerðin sem við sjáum í ríkissjónvarpinu í dag, það eru viðtalsþættir. Það er sáralítil innlend dagskrárgerð sem má segja að sé metnaðarfull að því er varðar leikið efni eða tækni eða möguleika miðilsins. Þær eru sárafáar heimildarmyndirnar sem ríkissjónvarpið hefur bolmagn til að gera. Og það er allt of lítið af innlendri, metnaðarfullri dagskrárgerð í íslensku sjónvarpi, sérstaklega þegar við hugleiðum það að hæstv. menntamálaráðherra segir í framsöguræðu sinni að meðal hlutverka ríkissjónvarpsins sé að framleiða menningararfinn og nýta hann áfram til áframhaldandi dagskrárgerðar. Hún auglýsti eftir því í ræðu sinni að við ættum að sýna meira af þeim menningararfi sem til væri á þessari merku sjónvarpsstöð.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, það er til mjög mikið af merkilegu efni, bæði hjá Ríkisútvarpinu, sjónvarpi og Ríkisútvarpi, hljóðvarpi. En það eru ekki til fjármunir til að vinna úr því efni til að sýna það í dagskrá sjónvarpsins. Undan slíkum hlutum hefur almenningur kvartað og starfsmenn sjónvarpsins hafa tekið undir það. Þeir eru með tækjabúnaðinn, þeir eru með fín stúdíó, þeir eru með hugmyndirnar, þeir eru með allt sem til þarf, bara ekki fjármagnið. Þetta er nánast eins og að vera á fullbúnum skuttogara en fá ekki að leggja frá landi, eða í hæsta lagi að fá einhverja línu sem gefur manni möguleika á að veiða einhvers staðar innan við tólf mílurnar. Skuttogari fiskar ekki þar.

Það verður að viðurkennast að mótorinn í íslensku dagskrárgerðinni, í metnaðarfullri innlendri dagskrárgerð, er fólginn í því fjármagni sem stofnunin, Ríkisútvarpið, fær til að sinna þessum þörfum. Ég hefði viljað heyra hæstv. menntamálaráðherra segja okkur að þau menningarlegu verðmæti, sem hún telur að sé verið að framleiða í ríkissjónvarpinu, fái það bensín, það eldsneyti sem þörf er á til að þessi metnaðarfulla dagskrárgerð geti farið fram. Eins og ég segi, ég ítreka það, þetta er eitt af því sem réttlætir eða styður við það að ríkisútvarp sé til staðar, sé til í flórunni okkar.

Annar töluliður í 3. gr. sem ég held að þurfi að leggja sig fram um að skilgreina eða þurfi að segja hvað þýði, er 13. töluliðurinn.

Hvað þýðir eftirfarandi 13. töluliður? Með leyfi forseta:

„Að eiga eða leigja, sem og að reka, hvers konar búnað og eignir, þar á meðal tæknibúnað og fasteignir sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi félagsins.“

Ekki er orð um það í greinargerðinni að litið sé svo á að Ríkisútvarpið þurfi að eiga t.d. dreifikerfi. Ég hafði um það mörg orð í fyrr ræðu minni að þar fyndist mér vera vöntun, skortur á því hvernig hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin sér þessa hluti fyrir sér. Það er ansi margt í 3. gr. sem á eftir að orða betur, sem á eftir að skilgreina og hæstv. ríkisstjórn þarf auðvitað að tala tæpitungulaust í þessum efnum. Hvað sér hún fyrir sér í alvöru varðandi hlutverk Ríkisútvarpsins og þær skyldur sem það á að bera umfram aðra fjölmiðla í landinu?

Hæstv. forseti. Það líður að lokum ræðu minnar. Mig langar til að víkja nokkrum orðum að þeim kröfum sem hafa orðið æ háværari á seinni árum um að ríkisfjölmiðillinn eigi ekki að vera svona stór eða sterkur, minnka eigi umsvif hans og jafna þurfi samkeppnisstöðu ríkisfjölmiðilsins og einkareknu miðlanna. Þetta er ákveðinn kór, ákveðnar kröfur sem maður hefur heyrt viðhafðar í umræðu um fjölmiðla allt fram á þennan dag. Ég hef hins vegar fagnað því að stjórnarmeirihlutinn skuli í orði kveðnu ætla að styrkja Ríkisútvarpið og standa við bakið á því og vona bara að hugur fylgi máli í þeim efnum.

Mig langar til að vitna til orða Gunnars Stefánssonar sem hefur skrifað bók, Útvarp Reykjavík, um fyrstu áratugina í starfsemi þessarar merku stofnunar. Hann segir í lokaorðum eftirmála með bókinni í tilefni af því að hann er að ræða um samkeppnisstöðu ríkisfjölmiðilsins annars vegar og einkareknu miðlanna hins vegar og það hversu margþætt þetta mál sé og jafnvel afdrifaríkara en ýmsir virðast hyggja, þessi barátta á fjölmiðlamarkaði.

Hann lýkur máli sínu með því að segja, með leyfi forseta:

„Engu skal hér um það spáð hvernig rekstri Ríkisútvarpsins kann að verða hagað í framtíðinni. En ég hef þá trú að stofnunin muni halda velli og enn á nýrri öld gegna hlutverki sem einkareknir ljósvakamiðlar séu ólíklegir til að vilja sinna eða geta sinnt með viðhlítandi hætti. Útvarp og sjónvarp ríkisins er umfram allt víðtæk þjónusta við almenning, til fróðleiks, skemmtunar og menningarauka. Þessi þjónusta er rekin með sameiginlegu átaki þjóðarinnar og fyrir þjóðina alla, án tillits til búsetu, aldurs, efnahags eða annarra þátta sem gera fólk að misvænlegum neytendum á markaðstorgi. Slíkur fjölmiðill mun hér eftir sem hingað til skipa stórt rúm í menningarlífi Íslendinga.“

Hæstv. forseti. Ég geri þessi orð Gunnars Stefánssonar að mínum.