131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:48]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Við eigum það sammerkt, ég og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, að bera sterkar tilfinningar til Ríkisútvarpsins þó að þær séu um þessar mundir svolítið tvíbentar, að vísu, af minni hálfu.

Hv. þingmaður vék hér að fjárskorti stofnunarinnar og því að peninga vantaði til dagskrárgerðar. Engu að síður kvarta hinar frjálsu útvarpsstöðvar á Íslandi og hinir frjálsu fjölmiðlar yfir því að það sé erfitt að keppa við Ríkisútvarpið að þessu leytinu til vegna þess að Ríkisútvarpið fær afnotagjöld og getur auk þess fengið auglýsingatekjur. Hefur hv. þingmaður velt því fyrir sér að hugsanlega sé yfirstjórnin allt of mikil í þessari stofnun, að það sé allt of mikil yfirbygging í henni og það sé að hluta til vandamál stofnunarinnar?

Áðan var komið inn á svæðisútvarp og þess háttar. Ég held að svæðisútvarp skipti landsbyggðina gríðarlega miklu máli og tengi þar með ákveðin byggðarlög Ríkisútvarpinu. Ég get ekki hugsað mér að sú starfsemi minnki. Ég get hins vegar vel ímyndað mér það að yfirstjórnin sé þung hjá Ríkisútvarpinu, ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni, og að þar mætti spara peninga sem síðan mætti nota til meiri dagskrárgerðar og kannski kröftugri.

Það er t.d. dálítið merkilegt að velta því fyrir sér að Stöð 2 er með morgunsjónvarp hér á hverjum einasta morgni þar sem við vöknum stundum við hv. þm. Pétur Blöndal, sem er þar tíður gestur, en Ríkissjónvarpið hefur ekki haft burði, getu eða áhuga til að reka morgunsjónvarp. Því ímynda ég mér að það væri hægt að skera niður þarna í yfirbyggingunni.