131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:13]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þyrfti eiginlega að fá túlk til að skilja hvað hér var nákvæmlega spurt um. Ég skildi þó að hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr hvort hægt sé að breyta hugarfari með lögum, eða hvort það sé vænlegt til árangurs. Ég held að lagarammi og lög geti skipt miklu máli um rekstur stofnana en hugarfar einstaklinga gerir það líka.

Ég hef stundum velt því fyrir mér, sérstaklega með Sjálfstæðisflokkinn sem skipar í stjórn opinberra stofnana, eins og Ríkisútvarpsins, yfirlýsta peningafrjálshyggjumenn, iðulega á kafi í braski sjálfa, og, a.m.k. í orði, andvíga opinberum rekstri — af hverju slíkir menn eru settir yfir þessar stofnanir. Við höfum séð það t.d. í útvarpsráði, og síðan er engu líkara en að þegar þessi mannskapur, það á við um Sjálfstæðisflokkinn iðulega líka, afþakkar pólitísk afskipti krefst hann þess eða leggur til að reistir verði varnarmúrar til að verjast nákvæmlega þeim aðilum sem þeir síðan setja til áhrifa og stjórnar í þessum stofnunum. Þetta hefur oft valdið mér miklum heilabrotum.

Um þetta að ráða og reka menn — ég skildi ekki alveg hvað hér var átt við. Ég tel að yfirleitt vilji menn ráða menn á faglegum nótum, það eru til undantekningar þar sem annarleg pólitísk sjónarmið ráða ferðinni, en það sem ég er að tala um þegar ég vík að réttindum starfsmanna er að menn verði ekki reknir og ráðnir — eða reknir öllu heldur — skýringalaust. Réttindi opinberra starfsmanna eru þau að geta krafist skýringa ef þeim er vísað úr starfi. Með frumvarpi ríkisstjórnarinnar væri sá réttur (Forseti hringir.) afnuminn.