131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:34]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að dagskrárráð eða notendaráð setji reglur um fréttaflutning og hafi aðhald og eftirlit með því að þeim reglum sé fylgt. Það sem hins vegar er verið að gera hér samkvæmt þessu frumvarpi er að aðilinn sem setur reglurnar og aðilinn sem á að hafa eftirlit með þeim er kosinn hlutfallskosningu hér á Alþingi og endurspeglar meirihlutavaldið hér inni — með öðrum orðum, ríkisstjórnarviljann.

Nú erum við að upplifa það hvernig núverandi formaður útvarpsráðs, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, fylgir þessum reglum eftir, væntanlega. Hann lýsti því yfir um daginn að hann hefði kallað nýjan fréttastjóra hljóðvarpsins inn á teppi vegna þess að hann væri honum ekki að skapi eða athafnir hans síðustu daga og vikur í tengslum við þær deilur sem risu í útvarpinu. Þar með erum við komin með pólitísk valdstjórnarafskipti af fréttastofu Ríkisútvarpsins í þá veru sem þetta frumvarp gerir síðan ráð fyrir að verði framhald á.

Varðandi starfsmannalýðræðið er í 9. gr. núgildandi útvarpslaga kveðið á um framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins. Það er orðin hefð fyrir því og lagalegur grundvöllur að fulltrúar starfsmanna komi að stjórn Ríkisútvarpsins með þessum hætti, eigi aðkomu að stjórninni. Með frumvarpi ríkisstjórnarinnar er þetta numið brott. Allur vísir að starfsmannalýðræði sem á rætur í kjarasamningum upp úr 1990 er numinn brott. Bara burt með allt þetta.

Síðan að lokum, hæstv. forseti, hefur komið fram, og við höfum ítrekað það í stjórnarandstöðunni, að uppi eru mismunandi áherslur, mismunandi hugmyndir. Við eigum eitt sammerkt; viljann til að koma sameiginlega (Forseti hringir.) að þessu máli og skapa um það þverpólitíska lausn. Þar stöndum við fullkomlega saman.