131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:38]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst felast í því ákveðið vantraust gagnvart starfsmönnum Ríkisútvarpsins að vilja bola þeim út úr stjórnum og frá áhrifum þar sem þeir hafa setið að borði. Það er ljóst að þetta er vilji starfsmanna. Frumvarpið gengur þannig þvert á vilja þeirra að þessu leyti. Ég tala af nokkurri reynslu hér. Ég sat í framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins um alllangt árabil sem formaður starfsmannafélags sjónvarpsins. Ég fullyrði að tillögur starfsmanna hafi jafnan verið jákvæðar og uppbyggilegar og til þess fallnar að leysa mál en ekki skapa vandamál. Ég fullyrði þetta. Ég fullyrði að þetta hafi almennt verið til góðs.

Hlutafélagaformið hafi verið hið æskilegasta, segir hæstv. ráðherra. Það sem við erum að gera með þessu frumvarpi — verði það að lögum — er að verið er að draga úr gagnsæi stjórnsýslunnar. Það er verið að rýra réttinn til starfsmanna og nú er að koma á daginn (Forseti hringir.) að það á að draga stórlega úr atvinnulýðræði.