131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:47]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í síðasta andsvari sínu hreyfir hæstv. ráðherra máli sem þarf ítarlegri umræðu. Hér kemur allt í einu fram hjá hæstv. ráðherra að hún sjái fyrir sér að ef innlend dagskrárgerð verði efld komi það til með að skerða möguleika Ríkisútvarpsins á að kaupa erlent efni. Ég er ekki viss um að allir þeir sem vilja efla Ríkisútvarpið séu sammála þeirri sýn hæstv. ráðherra sem hér kom fram.

Eitt af því sem við þurfum að ræða í menntamálanefnd eru slíkir hlutir. Þarna erum við farin að tala um nákvæma útfærslu hugmynda sem einungis er tæpt á með mjög almennum hætti í 3. gr. frumvarpsins.

Hæstv. forseti. Enn og aftur ítreka ég það sem ég hef áður sagt. Úr því að fjölmiðlanefndin náði þeirri sátt sem hún þó náði eftir allt sem á undan var gengið, og þar var ekki heldur fullur samhljómur á milli stjórnarandstöðuflokkanna, þá treysti ég því að hæstv. ráðherra sjái ljósið í þessum efnum og setji þessa vinnu í það samhengi að það náist pólitísk sátt um málið.