131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:54]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er nú liðið langt á kvöld og kannski von að menn séu farnir að ruglast en það er þannig að ef gert er ráð fyrir jöfnunarákvæðum af þessu tagi eins og kemur fram í athugasemdum um við 11. gr. þá verður það að eiga sér stoð í lögunum. Það er ekki nóg fyrir flutningsmann frumvarps af þessu tagi að setja eitthvað í greinargerð sem ekki á sér stoð í lögum. Það er þannig um skattheimtu á Íslandi — til upplýsingar fyrir hæstv. ráðherra — að það er Alþingi sem ákveður hana með lögum, það stendur í stjórnarskránni. Vegna þess að ekkert er getið um það í frumvarpinu við hvað mætti miða skattlagninguna, þá er eðlilegt að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyrji og ég á eftir henni: Hvað þýðir þessi setning? Er hún, eins og upplýsingar úr menntamálaráðuneytinu benda til, leifar af einhverri fyrri gerð frumvarpsins frá Birni Bjarnasyni, hæstv. fyrrv. menntamálaráðherra, og af hverju hefur þetta ekki verið tekið út? Eða er það þannig að menntamálaráðherra hæstv. meini það raunverulega að þetta séu jöfnunarákvæði og hún vilji hafa jöfnunarákvæði inni sem hún hefur gleymt að setja í lögin? Því að gleymskan er á öðrum hvorum staðnum.