131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:55]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þarna sé um einhvern misskilning að ræða hjá hv. þm. Merði Árnasyni því að þetta er alveg skýrt, m.a. í V. kafla frumvarpsins í 11. grein þar sem kemur nákvæmlega fram hvernig tekjustofnar Ríkisútvarpsins sf. eru og verða ákveðnir. Lagaheimildin sem slík er því alveg skýr. Orðalagið í athugasemdunum við 11. gr. er þannig, og það er rétt að undirstrika hvernig þetta er sett fram. Þetta eru ekki leifar af einhverju gömlu frumvarpi sem hefur einhvern tíma verið samið í menntamálaráðuneytinu. Það er ekki svo, heldur er um alveg nýtt frumvarp að ræða þar sem verið er að reyna að útskýra hvernig þetta kemur niður á mismunandi tegundum af fjölskyldum miðað við ástandið í dag. Orðið „jafnsett“ í athugasemdunum er ekki hægt að túlka sem eitthvert jöfnunarákvæði, það er ekki þannig, heldur er einfaldlega verið að reyna að draga fram hvernig þetta gjald eða nefskatturinn komi til með að lenda á hinum ýmsu tegundum fjölskyldna eða fjölskylduforms.