131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

644. mál
[23:56]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982.

Eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni hér á undan um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. er frumvarp þetta lagt fram samhliða því frumvarpi og byggir á því að fella niður þátttöku Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands samkvæmt gildandi lögum um hljómsveitina.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna er greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands 25% af rekstrarkostnaði hennar en frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. felur í sér endurskipulagningu á rekstri Ríkisútvarpsins og á því byggt að fella úr gildi framangreinda lagaskyldu um þátttöku Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar, en hann var um 118,5 milljónir að mig minnir á þessu ári.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er því lagt til að b-liður 1. mgr. 3. gr. gildandi laga falli brott en í stað þess verði hlutur ríkisins í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar aukinn sem þessu nemur skv. a-lið 1. mgr. 3. gr., þ.e. úr 56% í 81%.

Í samræmi við þessa breytingu er eðlilegt að Ríkisútvarpið eigi ekki lengur fulltrúa í stjórn hljómsveitarinnar og því er lagt til í 2. gr. frumvarpsins að menntamálaráðuneytið tilnefni mann í stjórnina samkvæmt 1. málsl. 4. gr. gildandi laga í stað Ríkisútvarpsins, eins og nú er.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntamálanefndar og 2. umr.