131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

°°°°°°°°°°Athugasemd.

[13:32]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þau tíðindi hafa orðið um störf þingsins að hæstv. forseti hefur neitað mér um að leggja fram fyrirspurn til forsætisráðherra.

Hver er sú milljón dollara spurning sem Halldór Blöndal, forseti Alþingis, bannar að spurt sé í þessum sölum? Hún er á þá leið hvort forsætisráðherra hyggist gera Alþingi grein fyrir hagsmunatengslum sínum, fjárhagslegum samskiptum og flokks síns við væntanlega bjóðendur í hlutabréf ríkissjóðs í Landssímanum hf.

Þegar forseti neitaði mér um að birta þessa spurningu bauð ég að það yrði sett „ef“ hagsmunatengsl væru, „sé þeim til að dreifa“ eða með einhverjum hætti tryggt að spurningin væri ekki leiðandi en forseti sagði: Nei, þetta er ekki opinbert málefni, þetta eru dylgjur.

En nú er einkavæðing Landssímans opinbert málefni. Framkvæmd þeirrar einkavæðingar er á ábyrgð forsætisráðherra og það að gagnsæi ríki um þá framkvæmd sannarlega opinbert málefni og atriði er varðar þing og þjóð um. Hér hafa ekki bara á Alþingi heldur úti í samfélaginu hjá málsmetandi fólki, nú síðast Agnesi Bragadóttur, landskunnri blaðakonu, risið upp efasemdir um að vel sé að þessu staðið. Ég vildi gefa hæstv. forsætisráðherra tækifæri til að hreinsa andrúmsloftið og gefa út um það yfirlýsingu að hér yrði allt uppi á borðinu vegna þess að í skugga leyndarinnar þrífst spillingin best.

Nú er þetta svo sem ekki í fyrsta sinn sem ungum mönnum (Forseti hringir.) er bannað að spyrja keisarann óþægilegra spurninga. En ég skora á forseta Alþingis að leyfa að málefnalegrar spurningar um framkvæmdarvaldið og athafnir þess sé spurt í sjálfu þjóðþinginu.