131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:37]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er orðin föst regla þegar koma upp óvægin innanflokksátök í Samfylkingunni að hún reynir að beina athygli fjölmiðla að öðrum málum. Í hvert einasta skipti sem þessi átök koma upp reyna menn að beina athygli fjölmiðlanna að öðru, og það tekst nokkuð vel. Þá er ekkert til sparað og einskis svifist frekar en í innanflokksátökunum í flokknum.

Það liggur að sjálfsögðu alveg ljóst fyrir að Framsóknarflokkurinn hefur engin hagsmunatengsl við fyrirtækið og á ekki hlutabréf í neinu fyrirtæki. Hins vegar vill svo til að framsóknarmenn vinna í ýmsum fyrirtækjum í landinu og ég vænti þess að hið sama eigi við um flokksmenn úr öðrum flokkum.

Hér er borin inn á Alþingi enn ein gróusagan frá Samfylkingunni. Ég tek ekki þátt í því. Meðal annars gengur sú gróusaga í þjóðfélaginu að það séu sterk hagsmunatengsl milli Samfylkingarinnar og fyrirtækisins Baugs. Ég trúi því ekki enda hefur engum þingmanni Framsóknarflokksins dottið í hug að taka það upp á Alþingi.

Nú liggur hins vegar fyrir að Síminn hefur verið auglýstur til sölu. Ekkert tilboð hefur borist og engin ástæða er til þess að ræða það á þessu stigi á Alþingi. Ég er hins vegar viss um að margir lífeyrissjóðir munu taka þátt. Það er áhugi á því að stofna sérstakt fyrirtæki almennings til að bjóða í Símann. Ég vona að það verði að veruleika og það munu áreiðanlega koma mörg tilboð. Það ferli mun allt verða opið og ég ætla að biðja þingmenn Samfylkingarinnar að beina (Forseti hringir.) áhuga sínum að innanflokksátökunum hjá sér en láta það vera að fylla Alþingi af gróusögum. (Gripið fram í: … forsætisráðuneytinu.)