131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:43]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér er greinilega um mjög viðkvæmt mál að ræða, það heyrist á öllu. Hæstv. forseti hefur mikinn formála að því hvers vegna reynt var að koma í veg fyrir að þessi fyrirspurn yrði borin fram og neitunin sýnir enn og aftur að hæstv. forsætisráðherra …

(Forseti (HBl): Forseti hefur ekki reynt að koma í veg fyrir að þessi fyrirspurn yrði borin fram. Samkvæmt þingsköpum er þingmanni heimilt, og honum ber að óska eftir því, að fyrirspurn skuli lögð skriflega fyrir þingfund og þá skuli greidd atkvæði um hana án umræðu. Það var honum frjálst. Það gat hann gert samkvæmt þingsköpum og ég reyndi ekki að koma í veg fyrir hans rétt.)

Herra forseti. Ég bið þig innilegrar afsökunar ef ég hef þig fyrir rangri sök.

(Forseti (HBl): Hv. þingmaður. Ég þigg það mjög gjarnan að heyra þessa afsökunarbeiðni og er glaður yfir því.)

Staðreyndin er sú að hæstv. forsætisráðherra hefur engu að síður tengst í fyrri einkavæðingum með beinum eignatengslum fyrirtækjum sem hafa fengið eignir ríkisins fyrir lítið. Þess er að minnast að …

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmann að vera ekki að lítilsvirða …)

Ég var að tala hreint út. Það liggur fyrir í fréttum og ljósvakahandritum að hæstv. forsætisráðherra hefur átt í fyrirtækjum sem tengdust S-hópnum. Það eru staðreyndir og þess vegna er það eðlileg krafa, lýðræðiskrafa, að við fáum tengsl hans upp á borðið í framhaldinu. Og að það sé fullyrt hér af sjálfum hæstv. forsætisráðherra að Framsóknarflokkurinn tengist þessu máli ekki á einn eða neinn hátt stenst tæpast. Staðreyndin er sú — ef þú leyfir mér að klára …

(Forseti (HBl): Hv. þingmaður er búinn með tímann.) (Forseti hringir.)

Málið er það að það er lokað bókhald í Framsóknarflokknum.

(Forseti (HBl): Ég vil óska eftir því að hv. þingmaður lúti fyrirmælum forseta.)