131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Synjun fyrirspurnar.

[13:46]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það þarf nú yfirleitt ærnar ástæður til þess að leggjast gegn því að fyrirspurn til ráðherra sé fram borin og afgreidd hér á þinginu. Orðalag fyrirspurna er að sjálfsögðu á ábyrgð fyrirspyrjanda og að því tilskildu að þær séu þingtækar og um opinber málefni er það hluti af mjög mikilvægum rétti þingmanna að mega leggja hér fram slíkar spurningar.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur fyrirspurn almenns eðlis um þessa hluti, fyrirspurn frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Er ríkisstjórnin reiðubúin að láta birta opinberlega yfirlit yfir fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra við fyrirtæki og sjóði á sambærilegan hátt og gert er í Danmörku?“

Þessi fyrirspurn var lögð fram hér fyrir réttum mánuði síðan og það er miður í ljósi þessarar umræðu að ekki skuli hafa unnist tími til að svara henni. Það væri ákaflega fróðlegt að heyra hvort hæstv. ríkisstjórn væri tilbúin til að taka það upp hjá sjálfri sér í þágu upplýsingagjafar um mikilvæg málefni að fara sömu leið og gert er í Danmörku. Þar er á heimasíðu danska forsætisráðuneytisins einfaldlega hægt að nálgast tæmandi upplýsingar um hlutabréfaeign og önnur hagsmunatengsl ráðherra í dönsku ríkisstjórninni.

Á danska þinginu er það svo þannig að þar reiða þingmenn sjálfir af fúsum og frjálsum vilja fram sambærilegar upplýsingar og setja þær á lista sem er birtur, og síðast þegar ég vissi voru meira en tveir þriðju hlutar danskra þingmanna sjálfviljugir á slíkum lista.

Ef þetta lægi fyrir hér og væri aðgengilegt með þessum hætti mætti a.m.k. eyða tortryggni varðandi fyrirhugaða einkavæðingu Símans hvað þetta varðar, og veitir nú ekki af eins og unnið er þar að málum og eins og sporin hræða í sambandi við framgöngu ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarmálum. Ég vil því inna hæstv. forsætisráðherra eftir því eða (Forseti hringir.) hvetja til þess að þessari fyrirspurn verði svarað hið fyrsta (Forseti hringir.) og vonandi með jákvæðum hætti.