131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:11]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem þessi samgönguáætlun tekur til sem við munum ræða í dag en ég vildi sérstaklega spyrja hæstv. samgönguráðherra að tvennu. Í fyrsta lagi er samkvæmt vísitölu Vegagerðar um að ræða niðurskurð til vegamála á árunum 2005–2006 upp á 5,4 milljarða kr. Telur hæstv. ráðherra þennan mikla niðurskurð vera skynsamlega ráðstöfun núna þegar hann kemur sérstaklega niður á viðkvæmu umhverfi byggðanna?

Í öðru lagi, samkvæmt tölum sem við þingmenn Samfylkingar létum taka saman og tekur til útgjalda ríkisins til vegamála síðustu áratugina kemur fram að útgjöld til vegamála af landsframleiðslu hafa lækkað frá árinu 1970 úr 1,67% af útgjöldum til vegamála af landsframleiðslu niður í 0,92% árið 1995. Útgjöld hafa hrapað sem hlutfall af landsframleiðslu. Telur hann þetta skynsamlega ráðstöfun nú í þessum mikilvæga málaflokki?