131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:12]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hvort skynsamlegt sé að hægja á framkvæmdum í samgöngumannvirkjagerðinni. Miðað við aðstæður í efnahagsmálum liggur alveg fyrir að ríkisstjórnin hefur komist að þeirri niðurstöðu, og ég tel að það sé nauðsynlegt að gæta hófs í umsvifum í efnahagskerfi okkar vegna þeirra miklu framkvæmda sem eru við uppbyggingu orkufreks iðnaðar um þessar mundir. Það er óhjákvæmilegt.

Hins vegar er alveg ljóst að vilji minn stendur að sjálfsögðu til þess að sem mest verði framkvæmt í vegagerð og samgöngumannvirkjum vegna þess að það er mikil þörf á því. Þarna verður að vega saman aðstæður í efnahagslífinu og uppbyggingarþörf okkar. Ég bendi hv. þingmanni á að engu að síður sé verið að framkvæma meira á þessu og næsta ári en áður hefur verið gert.