131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:13]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fullyrði að málflutningur hæstv. ráðherra er rangur. Það er rangt að raska viðkvæmu ástandi byggðanna með þeim hætti að skera niður framlög til vegamála upp á 5,4 milljarða fyrir árin 2005 og 2006. Þetta er alröng ráðstöfun á meðan ástandið er jafnviðkvæmt og það er víða úti í byggðunum. Þetta er byggðafjandsamlegur niðurskurður sem kemur alvarlega við þær og ég fullyrði að almennt á að auka framlög til vegamála og samgöngumála þar sem þau kalla ekki á veruleg rekstrarframlög í framtíðinni og spara sennilega mikla fjármuni þegar allt er reiknað með fækkun slysa, ódýrari rekstri bifreiða, minni eldsneytisnotkun, styttri vegalengdum og almennum tímasparnaði.

Hér er hæstv. ráðherra á miklum villigötum, sérstaklega þegar litið er til þess samanburðar sem ég gat um áðan og mun gera betur grein fyrir á eftir þar sem framlög til vegamála af landsframleiðslu hafa bókstaflega hrunið á síðustu árum.