131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:18]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé fullkomlega röng forgangsröðun að skera niður fjármagn til samgöngumála. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra. Stór hluti tekna ríkissjóðs kemur af tollum, virðisaukaskatti og öðrum álögum á innflutning. Nú hefur innflutningur vaxið gríðarlega og þar af leiðandi líka þessar tekjur ríkissjóðs sem eru náttúrlega skammtímatekjur, í raun skattar á viðskiptahallann. Kæmi til greina að taka þá peninga sem núna koma inn og verja þeim til samgöngumála og koma í veg fyrir niðurskurðinn á samgöngumálum sem núna er uppi? Ég hélt að það hefði verið pólitísk sátt um það, a.m.k. vilji Alþingis, að norðausturhornið og Vestfirðir yrðu látnir njóta sérstaks aukins átaks í samgöngumálum. Um það hefur verið rætt. Meira að segja forsætisráðherra hefur lýst því yfir að næst sé komið að stórátaki á Vestfjörðum og reyndar í Norðvesturkjördæmi hvað m.a. samgöngumál varðar. Þessa stórátaks sér ekki stað. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. samgönguráðherra: (Forseti hringir.) Hvar er þetta stórátak?