131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:45]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé að skerpa á því að í samgönguáætluninni til næstu fjögurra ára eru 85 milljarðar til samgöngumála, þar af eru 60 milljarðar til vegamála. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á Sundabraut. Fólk hans í pólitík sem ræður meiri hluta í borgarstjórn hefur tekið sér langan umhugsunarfrest til að ákveða hvar lega Sundabrautar eigi að vera og hefur ekki komist að niðurstöðu enn þá með það mál. Það er því rétt sem hæstv. samgönguráðherra kom inn á að það er ætlað fjármagn til rannsókna og að því verki loknu og þegar meiri hluti borgarstjórnar hefur loksins komið sér saman um legu Sundabrautar verður hægt að fara að vinna í því máli. Það tekur tvö til þrjú ár að undirbúa þá framkvæmd og að því loknu verður væntanlega hafist handa, enda hefur ríkisstjórnin rætt um að setja sérstakt fjármagn í Sundabrautina og við erum ekki að tala um milljónir heldur milljarða sem þarf í þá framkvæmd.

Það var líka athyglisvert að hlusta á hv. þingmann sem kom ekkert inn á hin mislægu gatnamót Miklubraut/Kringlumýrarbraut sem R-listinn byrjaði á að flauta út af skipulagi í Reykjavík 1994. Það hefur verið talað um það æ ofan í æ að þar fari yfir 80 þús. bílar á dag og nauðsynlegt sé að setja þar upp mislæg gatnamót en R-listinn hefur ekki komið því verki áfram. Nú er verið að tala um að breikka aðreinar þar og setja upp fleiri ljós. Það á því að tjalda til nokkurra ára enn og svo segir hv. þingmaður að hastarlegt sé að ekki skuli vera nefndir á nafn einhverjir milljarðar í sambandi við Sundabraut. Dæmið liggur þannig, virðulegi þingmaður, að borgarstjórn vinnur að því máli með hraða snigilsins.