131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:58]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ákaflega naumt skammtað satt best að segja að hafa átta mínútur til að ræða hinar stóru og viðamiklu framkvæmdaáætlanir á sviði flugmála, hafna og vegagerðar. Eiginlega finnst mér að mönnum hafi láðst að breyta reglum um þær umræður í ljósi þess að þetta er allt rætt í einu sem á sér rót í þeirri samræmdu samgönguáætlun sem nú er farið að vinna eftir og má margt gott um segja. En það er ástæðulaust að takmarka svo mjög möguleika manna til að ræða þetta að það sé komið niður fyrir þrjár mínútur á hvern málaflokk sem menn hafa til ráðstöfunar.

Auðvitað er sá mikli niðurskurður eða frestun, menn geta notað hvaða orð sem þeir vilja um það, sem blasir við okkur á framkvæmdum einkum og sér í lagi til vegamála nú á þriggja ára tímabili ákaflega tilfinnanlegur. Markmiðin í samræmdri samgönguáætlun þeirri sem afgreidd var í marsmánuði árið 2003 voru að mörgu leyti glæsileg. Þá lá fyrir nokkurra mánaða gömul ákvörðun ríkisstjórnar um að stórauka framlög til vegamála sem var mikið fagnaðarefni og var tilkynnt og ákveðið á þinginu þá um haustið. En þeim mun dapurlegri urðu örlög hinnar fyrstu samræmdu samgönguáætlunar eða vegáætlunar, hluta hennar, því blekið var varla þornað á pappírnum þegar hún var skorin mjög harkalega niður og síðan hefur því fram haldið þannig að samtals er um að ræða niðurskurð og/eða frestun upp á 5.722 millj. kr. á þriggja ára tímabili ef marka má greinargerð frumvarpsins og ætli það sé ekki öruggast að halda sig við það sem heimild. Ef ég fæ rétt lesið er ekki gert ráð fyrir að niðurskurði ársins 2004 sé skilað innan áætlunartíma núgildandi áætlunar eða þeirrar sem hér er rædd því að þar er eingöngu talað um að skila aftur niðurskurði áranna 2005 og 2006 á árunum 2007 og 2008. Þá stendur út af yfir 1.800 millj. kr. frestun framkvæmda á árinu 2004.

Þetta er auðvitað hið bagalega og það er þeim mun bagalegra sem ég tel alveg augljóst að þörfin fyrir framkvæmdir er meiri en nokkru sinni fyrr. Hún er ekki bara hlutfallslega jafnmikil. Það þyrfti að ráðstafa núna um sinn enn hærra hlutfalli af þjóðartekjum til samgöngumála og sérstaklega vegamála en gert hefur verið, m.a. vegna breyttra aðstæðna í flutningakerfi landsins, breyttra búsetuhátta og annarra slíkra ástæðna. Heildarfjárveitingin er einfaldlega allsendis ónóg og það sést best ef hlutföllin eru skoðuð sem verja á af þjóðartekjum til vegamála á þessu tímabili. Samkvæmt þjóðhagsspá frá fjármálaráðuneytinu er gert ráð fyrir því að verg landsframleiðsla verði 955 milljarðar kr. á þessu ári. Það gerir, ef ég hef reiknað rétt, að 12,9 milljarða kr. fjárveiting til vegaframkvæmda á árinu er ekki nema 1,35% af þessari vergu landsframleiðslu. Það er þar með orðið eitt af allra lökustu árum sem við höfum horft framan í um langt árabil í þessum efnum.

Enn slakari verður útkoman næsta ár þegar gert er ráð fyrir því að verg landsframleiðsla fari í 1.035 milljarða kr. en aðeins tæplega 12,5 milljörðum verði varið til vegamála í heild. Þá verður þetta hlutfall orðið 1,20%, ef áfram er rétt reiknað. Eru þá aðeins finnanleg í allri sögunni frá árinu 1964 tvö ár sambærileg eða lélegri. Tvö ár. Það var þegar hægri stjórnin sem sat að völdum frá 1983–1988 hafði komið þessu hlutfalli niður í 1,03% eins og frægt var á árinu 1987. Þetta er auðvitað hið dapurlega, herra forseti, og ég held að það sé frjórra að ræða um þetta en að karpa með þeim hætti sem þingmenn Reykjavíkur voru að gera áðan við aðra ræðumenn um það hvort það sé Reykjavíkurborg eða ríkinu að kenna að ekki er búið að byggja Sundabraut. Hvers konar þvættingur er þetta? Má ég biðja þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þótt þeir komi úr Reykjavík og þótt þeim sé illa við R-listann, að fara ekki með svona endemis bull. Bíður einhvers staðar á bankabók fé til að ráðast í Sundabraut? Hvaða rugl er þetta, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson? Hefur ríkið depónerað fjárveitingum til að byggja Sundabraut fyrir sitt leyti? (GHall: Það er ekkert …) Nei, Guðmundur Hallvarðsson. Mér finnst alveg fyrir neðan allar hellur að menn skuli tala svona. Við vitum öll að þetta er 12–15 milljarða framkvæmd, eða hvað það nú er. Hún er ekkert inni í þessum pakka. Það er himinn og haf milli þess (GHall: Þetta er ákvarðanataka R-listans.) að hægt sé að standa við þetta. Eru peningarnir til reiðu? Er búið að depónera þeim. (GHall: Það eru þrjú ár …) Já, já, ég hef heldur betur séð það. Ég held að það eigi frekar að ræða um þessa hluti eins og þeir eru. Það þarf einhvern veginn að koma fyrir þessum niðurskurði og það þarf að vera frestun upp á rúma 5,7 milljarða kr. á árunum 2004, 2005 og 2006 — og ætli það sé ekki handleggur sem taki í? Og þó svo að fjárveitingarnar skili sér aftur árin 2007 og 2008 og þetta fari þá í 16–17 milljarða kr. sem þetta á þá að fara í — ja, hvað þýðir það? Þá verður landsframleiðslan orðin 1.100–1.200 milljarðar. Við verðum áfram að glíma við mjög lág hlutföll hvað varðar vegamálin, meira að segja þó að þeir fjármunir skili sér. Við verðum langt frá því að vera með framkvæmdamagnið miðað við tekjur í þjóðfélaginu sambærilegt við það sem best hefur gerst.

Það er líka margt sem hér væri áhugavert að nefna, t.d. það sem snýr að umhverfismálum og umferðaröryggismálum, en ég hef augljóslega ekki tíma til þess. Ég vil nefna það eitt um flugið að það eru mér vonbrigði að ekki skulu vera settar fjárveitingar inn á bæði lengingu Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar. Það er betra en ekki neitt að þarna standi að þetta eigi að athuga en sú var venjan að ef mönnum var alvara í áætlunum af þessu tagi voru eyrnamerktar einhverjar fjárveitingar til að undirbúa slíkar framkvæmdir. Það jafngilti viljayfirlýsingu löggjafans um að slíkar framkvæmdir nytu stuðnings. Þess vegna hefði ég viljað sjá að menn eyrnamerktu a.m.k. þann kostnað sem kann að hljótast af þessum rannsóknum.

Hafnaliðurinn, það má hafa fá orð um hann, nýju hafnalögin þýða auðvitað að verulega dregur úr stuðningi ríkisins á komandi árum við hafnagerð í landinu og þeim kostnaði er velt yfir á hafnirnar. Svo einfalt er það mál.

Aftur að vegunum, virðulegur forseti. Það stefnir í það að bílaeign landsmanna, ef ég hef áætlað rétt eða reiknað, fari í 200 þús. í lok þessa árs. Það mun ekki skeika miklu að landsmenn eigi 200 þús. bíla í árslok 2005 miðað við innflutninginn eins og hann er þessa mánuði og miðað við að þetta var að komast í 190 þús. í fyrra. Hvað þýðir það? Það þýðir að umferðin er meiri en nokkru sinni. Strandsiglingar lögðust niður eða svo gott sem, með þeirri virðingarverðu undantekningu sem er einkaframtak þeirra sem gera út Jaxlinn. Allir þessir flutningar eru komnir upp á vegina. Fleiri bílar en nokkru sinni, meiri þungaflutningar en nokkru sinni og þörfin í nútímasamfélagi meiri en nokkru sinni. Þá ætlum við, þetta ríka þjóðfélag, að verja hlutfallslega minna til framkvæmda á þessu sviði en við höfum nánast nokkru sinni gert. Og svo er þetta rugl um að alltaf hafi legið fyrir að það yrði dregið úr fjárveitingum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Ég lýsi eftir ræðunum þegar menn mærðu það verk og kölluðu það mestu byggðaaðgerð allra tíma (Forseti hringir.) fyrir kosningar 2003 þegar mönnum var sagt að það yrði skorið niður í vegamálum (Forseti hringir.) um 5,7 milljarða kr. Það var aldrei sagt.