131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:12]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var búið að ákveða gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar áður en niðurstöður lágu fyrir um virkjanamál á Austurlandi. Það var löngu ákveðið að þar yrðu fyrstu jarðgöngin eða samhliða þá Héðinsfjarðargöngum eins og til stóð um tíma að yrði. Það er röng söguskoðun að það hafi verið endilega í beinu samhengi við þessar virkjunarframkvæmdir.

Ég fór ekkert með nema staðreyndir upp úr greinargerð tillögunnar frá ráðherra sjálfum. Það þarf ekkert að svara því að maður sé sekur um einhverja óhæfu í málflutningi af því að maður ljúki ekki lofsorði á þó þær framkvæmdir sem komast inn í þennan þrönga ramma, hvort sem þær eru á mínum heimaslóðum eða einhvers staðar annars staðar. Ég tel að ég þurfi ekki að sitja undir slíku. Auðvitað fagnar maður því sem ávinnst en það er bara of lítið. Ég taldi mig rökstyðja það sæmilega rækilega með því að vitna í hlutföll, með því að vitna í vaxandi umferð, með því að vitna í vaxandi bílaeign landsmanna, með því að vitna í flutningana sem eru að færast upp á land og á vegina, að þörfin er einfaldlega meiri.

Það er ekkert nýtt heldur af minni hálfu að ég hafi reynt að verjast því að menn tækju alltaf vegamálin og gripu þar niður þegar upp kemur einhver, að mínu mati aðallega sálræn, þörf fyrir það að vera eitthvað að þykjast sýna ábyrgð og fínstilla hagkerfið með slíkum æfingum. Þegar það er sett í raunverulegt samhengi er um svo litla tölu að ræða borið saman við framkvæmdirnar t.d. á vegum Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og álfyrirtækjanna að það eitt og sér sýnir okkur hversu ósanngjarnt það er að menn skuli alltaf bera niður í vegamálunum og taka 1 eða 2 af þessum 6–8 milljörðum sem þar eru til framkvæmda. Höfum þá í huga að af 12–13 milljarða fjárveitingum til vegamálanna erum við ekki að tala um nema rétt um helming í framkvæmdir. (Forseti hringir.) Hitt fer í stjórnun, rekstur og viðhald þannig að það er þeim mun tilfinnanlegra sem það er haft í huga.