131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:40]

Lára Stefánsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera erfið staða fyrir hæstv. samgönguráðherra að fá hvern samflokksmann sinn á fætur öðrum hér upp til að gagnrýna störf hans og verður að viðurkennast að fyrir mér, sem er ekki alvön hér, er það dálítið óvenjuleg staða.

Varðandi útreikninga miðað við höfðatölu, sem ég hef alltaf gaman af en eins og bent hefur verið á er Esjan hæsta fjall landsins miðað við höfðatölu, þá er það einfaldlega svo að kílómetrar í vegum í kjördæmunum eru ekki hinir sömu. Það er ákveðinn endir á því hvað hægt er að bauka við 115 km í Reykjavíkurkjördæmunum miðað við hvað er hægt að fást við 5.100 km í Norðvesturkjördæmi, svo ég beri smáblak af samgönguráðherranum fyrst hans eigin menn ætla ekki að gera það hér.

Það er dálítið sérstakt að fást við það að það sé ómögulegt að byggja hafnir og vita ekkert af hverju, og ómögulegt að gera þetta og hitt án þess að vita kannski nákvæmlega hvað það er, þegar það er auðvitað alveg ljóst að það þarf fjármagn í ákveðnar vegaframkvæmdir á Reykjavíkursvæðinu eða höfuðborgarsvæðinu til að tryggja ákveðið öryggi. Ég tel mikilvægara að einbeita sér að því en að sletta úr klaufunum út um allt land við hæstv. ráðherra. Ég minni á að það þarf líka að huga að hversu langir vegirnir eru, hvar þeir liggja, og vegir úti á landi eru ekki bara fyrir fólk úti á landi. Þeir eru líka fyrir ferðamenn eins og komið hefur fram hér í ágætri áætlun um ferðamenn. Það ætti að huga að því að vegir eru ekki bara fyrir þá sem eiga heima við endann á þeim.