131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:44]

Lára Stefánsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna slíkum málflutningi þegar farið er að horfa á hvar þarf að bæta úr á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað rétti málflutningurinn. Ég vil minna á það sem kom fram í ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar að minni hlutinn af kökunni eru samgöngumál, minni hlutinn af kökunni fer í þau mál og þar af leiðandi er vandi höfuðborgarsvæðisins þessi. Menn eiga að einbeita sér að því sem málið snýst um í staðinn fyrir að finna að einhverju allt öðru, bæði sínum eigin ráðherra og landsbyggðarmönnum, og að fárast yfir því eitthvað þegar orsökin er gersamlega augljós. Auðvitað þarf samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Þær á hv. þingmaður auðvitað að sækja, virðulegi forseti, en hann á að sækja þær á réttan stað.