131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:51]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því og mun fara í lið með félaga mínum, hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að auka fé til vegamála. Við reyndum svo sem að gera það áður en áætlunin var lögð fram.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að þetta hefur hverfandi áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar, 1 eða 2 milljarðar í vegamálum. Það er eitthvað annað sem hefur þar úrslitaáhrif eins og t.d. allt það gífurlega fjármagn sem búið er að fá að láni erlendis, bæði Íbúðalánasjóður og bankarnir, og sprauta í íbúðabyggingar og húsbyggingar og setja verðlagsmál og efnahagsmál landsins í gífurlegt uppnám. Ég held að menn verði að hugsa um það fyrst. En auðvitað er ég sammála því að auka megi fjármagn til vegagerðar, ég verð fyrstur manna til að viðurkenna það.