131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:08]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég sagði áðan var af því gefna tilefni að hv. þingmaður sagði að skiptingin á milli kjördæma væri stórmóðgun við íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ég tel að það geti ekki verið stórmóðgun að leggja upp áætlanir um endurbætur á vegakerfinu, endurbætur á þeim hluta vegakerfisins þar sem hætturnar eru mestar. Umferðaröryggisaðgerðirnar eru aðalatriði þessarar samgönguáætlunar.

Ég vænti þess að hv. þingmenn, allir sem einn, séu tilbúnir til þess að taka á til þess að auka umferðaröryggi á þjóðvegum landsins. Mörg umferðarslys verða á höfuðborgarsvæðinu. En alvarlegustu slysin verða á þjóðvegum landsins og þar er endurbóta þörf.

Það er viðurkennt, held ég, af öllum sem fylgjast vel með uppbyggingu samgöngukerfisins og þeim sem fylgjast með umferðarmálum að þrátt fyrir að okkur finnist stundum vera biðraðir á höfuðborgarsvæðinu þá er það nú þannig að ástandið í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu er með því allra besta sem þekkist í nokkurri einustu höfuðborg í Evrópu. Engu að síður viljum við bæta þetta. Þess vegna höfum við verið að byggja mislæg gatnamót í Mjóddinni, við Stekkjarbakkann og breikka Reykjanesbrautina, breikka Vesturlandsveginn vestur í Mosfellsbæ og byggja mislæg gatnamót við Víkurveg o.s.frv. Það hafa því orðið stórstígar framfarir í samgöngukerfinu á höfuðborgarsvæðinu sem betur fer og það hefur dregið úr slysum á höfuðborgarsvæðinu sem betur fer. Það gilda því alveg sömu lögmál, að mínu mati, á höfuðborgarsvæðinu og úti um landið. (Forseti hringir.) Við þurfum að leggja fram fjármuni til þess að bæta umferðaröryggi.