131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:10]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hvernig stendur á því, virðulegi forseti, að í annað sinn sem hæstv. ráðherra kemur upp í ræðustól til þess að veita andsvar við ræðu minni þá kemur hann sér undan því að svara beinum fyrirspurnum sem til hans er beint um Sundabrautina. (Gripið fram í.) Hefur hæstv. ráðherra slæma samvisku að því er (Gripið fram í.) varðar Sundabrautina? Ég er ekki hissa á því þó að hann hafi slæma samvisku út af Sundabrautinni (Gripið fram í.) því að ekkert framkvæmdafé á að leggja til hennar.

Ég bara óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem til hans er beint. Það skiptir miklu máli fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, ekki síst Reykjavíkur, hvernig með Sundabrautina á að fara. Það liggur fyrir að hún er alveg klár til ákvarðanatöku núna á næstunni og það er hægt að ráðast í hönnunina og byrja framkvæmdir á árinu 2007. Hæstv. ráðherra getur ekki komið sér undan því að svara okkur þingmönnum Reykvíkinga um hvernig þar á að standa að málum.

Hæstv. ráðherra notar tíma sinn til þess að réttlæta það af hverju svo miklu meira vegafé hafi farið til landsbyggðarinnar en höfuðborgarsvæðisins. Ef hæstv. ráðherra hefði hlustað á mál mitt áðan þá kom ég einmitt að því að ég hef sýnt því fullan skilning á þeim árum sem ég hef setið á þingi að það hefur farið verulega meira fjármagn til landsbyggðarinnar en höfuðborgarsvæðisins og ég hef stutt það. Á síðastliðnum tíu árum erum við að tala um að 80% af nýframkvæmdafé hafi gengið til landsbyggðarinnar en 20% til höfuðborgarsvæðisins. Það sýnir auðvitað að ég hef fullan skilning á því að það þarf að bæta þar samgöngur. En það þýðir ekki að ég samþykki að Reykjavíkurborg og höfuðborgarsvæðið eigi að vera út undan. Við erum að tala um langt árabil þar sem höfuðborgarsvæðið hefur verið út undan og við segjum: Nú er bara nóg komið. Nú er komið að Reykjavík, að auka fé til nýframkvæmda til þess að hægt sé að ráðast í brýnar framkvæmdir. Það stendur í skýrslu ráðherrans sjálfs að hér séu slys tíðust og að unnt sé að fækka umferðarslysum mest á þessu svæði með því að bæta hér samgöngumálin. (Forseti hringir.) Ég krefst þess að hæstv. ráðherra geri það.