131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Það er ákaflega merkilegt að hlýða hér á þingmann Reykvíkinga tala og reyna …

(Forseti (ÞBack): Má ég biðja hv. þingmenn um að …)

Hv. þingmaður segir ekki orð um það að hér er verið að svelta höfuðborgarsvæðið og Reykjavík. Hann fer í sinn gamla frasa að vísa til borgaryfirvalda, segir að þau séu eitthvað vanbúin að taka ákvarðanir o.s.frv. eins og hann gerir alltaf. Það er hans regla. Ég hef aldrei heyrt hv. þingmann, sem er að ég held formaður samgöngunefndar, taka undir það að verulega sé hallað á hlut Reykvíkinga og höfuðborgarsvæðisins að því er varðar nýframkvæmdafé, en það er bara svo.

Varðandi Sundabrautina hefur verið haft eftir borgarstjóra, ég er með það hér fyrir framan mig og það er úr Morgunblaðinu 7. apríl, að borgarstjórn muni taka ákvörðun um legu brautarinnar um leið og umhverfisráðherra hefur úrskurðað um umhverfismat. Það liggur bara fyrir. Borgarstjórinn segir líka að ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt varðandi tengingu við miðborgina viljum við fara svokallaða innri leið sem samgönguráðuneytið hefur lagt áherslu á. (Gripið fram í.)

Það liggur sem sagt fyrir hjá borgarstjóra að það stendur ekki á borgaryfirvöldum, það stendur á fjármagni. Það stendur á fjármagni, frú forseti, og sú er staðreynd málsins. Það á ekki að vera að drekkja þessu í rugli um að það standi eitthvað á Reykjavíkurborg eina ferðina enn. Það liggur fyrir að um leið og við fáum Sundabrautina úr umhverfismati mun borgarstjórn taka ákvörðun um leguna á brautinni og þá er hægt að ráðast í hönnunarframkvæmdir sem væntanlega verður ekki hægt að klára, ef það verður ekki sett meira fé í hönnunina en þessar 350 milljónir sem áætlaðar eru. Það fór ég yfir í ræðu minni áðan.

Það liggur líka fyrir varðandi Miklubraut, það hefur verið fallist á það að ráðast verði í gerð mislægra gatnamóta, það borgi sig að bíða og sjá hvernig breikkun gatnamótanna reynist. Það hefur verið sett (Forseti hringir.) framkvæmdafé í þær endurbætur.