131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tekið eftir því að það hafi staðið í hv. þingmanni hér í gegnum árin að samþykkja milljarða hér og milljarða þar, í göng hér og göng þar, en þegar kemur að framkvæmdum í Reykjavík sem eru kannski af svipaðri stærð, fyrsti áfanginn eins og göng sem ekki hefur staðið í hv. þingmanni að samþykkja, hefur hann allt á hornum sér og talar út og suður um að það standi eitthvað á borgaryfirvöldum. Það gerir það bara ekki. Borgaryfirvöld hafa lagt áherslu á að lega Sundabrautar verði með þeim hætti að umferðinni verði beint að miðbænun og að lífríki Elliðaár skaðist ekki. Báðum þessum markmiðum sýnist vera hægt að ná með þessari innri leið. Þess vegna mun ekki standa á borgaryfirvöldum að taka ákvörðun í þessum málum um leið og umhverfismatið liggur fyrir. Það er bara staðreynd málsins, virðulegi forseti.

Ég skil ekki hvað vakir fyrir hv. þingmanni að vera að þvæla með málið fram og til baka eins og hann hefur gert hér. Og að það standi í hv. þingmanni að reyna að berjast fyrir því með okkur þingmönnum Reykvíkinga að fá samgönguráðherrann til að setja niður tímasetta áætlun um framkvæmdir við Sundabrautina og standa með okkur í því að hæstv. samgönguráðherra standi ekki þannig að málum að tekið verði gjald af Sundabrautinni sem er innan borgarmarkanna, ég skil það ekki. Það ætti frekar að vera kappsmál hv. þingmanns að berjast með þingmönnum Reykjavíkur en tala með þeim hætti sem hann hefur hér gert.

Varðandi Miklubrautina og Kringlubrautina liggur fyrir, haft eftir borgarstjóra, að framkvæmdir muni hefjast við breikkun gatnamóta Kringlumýrar-/Miklubrautar. Með þessari breikkun gatnamótanna komast allir umferðarstraumar í frítt flæði og þessar endurbætur munu verulega bæta allar samgöngur á þessum stað sem virkilega er ástæða til að taka á. (Forseti hringir.) Síðan er þá verið að vinna áfram að mislægum gatnamótum en þessar endurbætur sem nú koma (Forseti hringir.) munu bæta hér verulega úr.