131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:30]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Í dag ræðum við þingsályktunartillögu um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008. Þegar við ræðum þessi mál horfum við gjarnan til eigin kjördæma og í sjálfu sér er ekki neitt athugavert við það vegna þess að þessi málaflokkur er fólki afar hugleikinn.

Ég ætla fyrst og fremst að gera samgöngur á landi að umræðuefni þó svo að ég viti að í rauninni sé ekkert byggðarlag þar sem samgöngur skipta meira máli en Vestmannaeyjar. Við höfum verið að berjast fyrir auknum og betri samgöngum til Eyja vegna þess að samgöngur skipta Vestmanneyinga gríðarlega miklu máli.

Samgöngur skipta landsbyggðina alveg sérlega miklu máli. Við megum líka passa okkur á því að stilla ekki höfuðborginni og landsbyggðinni upp sem andstæðum fylkingum hvað þetta varðar vegna þess að við sem komum af landsbyggðinni getum ekki verið án höfuðborgarinnar og á sama hátt er óhætt að segja að höfuðborgarbúar geti ekki verið án okkar sem á landsbyggðinni búum.

Það er dálítið merkilegt þegar við hlustum á þingmenn ræða um samgöngumál, þá tala þeir sumir eins og miklir sérfræðingar í vegagerð, brúargerð, flugvallargerð, hafnargerð, svo ekki sé talað um gangagerð. Og margir þingmenn hafa tamið sér að tala eins og þeir kunni allt í vegagerð enda er, eins og ég sagði í upphafi máls mín, þessi málaflokkur þannig að það hafa í raun og veru allir mjög mikinn áhuga á honum.

Við búum við gríðarlega breytt munstur í búsetu. Á höfuðborgarsvæðinu sækja höfuðborgarbúar miklu meira út á land en þeir gerðu áður, bæði hvað varðar sumarhús og sumarbústaði, auk þess sem mjög margir hafa kosið að kaupa sér húsnæði t.d. í nágrannabyggðum eins og Hveragerði, Selfossi, jafnvel í uppsveitum Árnessýslu, Hellu og Hvolsvelli. Þetta fólk sækir jafnvel vinnu daglega til Reykjavíkur eða þá fólk sækir vinnu á þessa staði úr Reykjavík. Það er því orðin gríðarlega mikil umferð á ákveðnum stöðum og flöskuhálsar eins og t.d. Hellisheiðin. Hún er í dag orðin flöskuháls og ég gleðst mjög yfir því að gert er ráð fyrir í þessari áætlun að verja 300 milljónum til þess að breikka veginn um Hellisheiði og koma þannig fyrir málum. Þar eru mjög miklar slysagildrur og mjög nauðsynlegt að koma í veg fyrir öll þau slys sem verða á heiðinni.

Fyrir mörgum árum henti ég fram þeirri hugmynd að full ástæða væri til að skoða þá möguleika hvort ekki ætti að setja göng í gegnum Hellisheiði á sama hátt og göng eru undir Hvalfjörð. Við búum í samkeppni við þessi byggðarlög og þetta skiptir máli og mér finnst að við ættum að huga verulega að þessum málum.

Það er margt fleira sem mætti nefna þegar við tölum um flöskuhálsa. Þegar við ökum í gegnum Selfossbæ er þar orðin gríðarlega mikil umferð, hvort sem við ökum þar um á degi eða nóttu. Það helgast líka af því að mjög miklar samgöngur eru orðnar á landi. Eftir að strandsiglingar lögðust af varð margfalt meiri umferð á landi en áður var og þarna er auðvitað mjög nauðsynlegt að huga að brúargerð og öðru slíku.

Greiðar samgöngur eru líka forsendur fyrir sameiningu sveitarfélaga. Ef ég horfi til þess svæðis sem ég vinn núna og bý á, þ.e. í uppsveitum Árnessýslu, ef þar á að geta orðið sameining sveitarfélaga er nauðsynlegt að flýta eins og mögulegt er brú yfir Hvítá til að tengja svæði saman. Á sama hátt þarf líka að leggja aukið fé í Gjábakkaveg til að tengja svæðið betur höfuðborgarsvæðinu.

En eitt af því sem ég sakna í þessari samgönguáætlun er Suðurstrandarvegur. Ég ætla ekki að fara út í umræðu um Héðinsfjarðargöng en þau voru í raun samþykkt á sömu forsendu og Suðurstrandarvegur, þ.e. vegna breytingar á kjördæmaskipuninni, þannig að ég sakna þess mjög að sjá ekki Suðurstrandarveg í þeim tillögum sem hér eru því að með Suðurstrandarvegi skapast líka tenging við Suðurland með alveg sérstökum hætti.

Það er annar málaflokkur sem allt of sjaldan er talað um þegar fjallað er um samgöngur á landi, það eru hinir svokölluðu tengivegir. Í gamla Suðurlandskjördæmi eru 25% af öllum tengivegum landsins. Það er auðvitað afar brýnt með tilliti til þess að flestir þeirra 300 þúsund útlendinga sem heimsækja Ísland á ári hverju eru farnir að taka bílaleigubíla. Þetta sama fólk ekur á þessum vegum, tengivegum á Suðurlandi, og það er afar brýnt að verja meiri peningum til þeirra en nú er gert.

Ég nefni fleiri vegi sem allt of sjaldan er talað um, þ.e. landvegir utan grunnnets. Það eru hálendisvegir sem tengja saman landshlutana, það eru safnvegir sem eru til sveita, það eru styrkjavegir o.s.frv. Hér er líka talað um reiðvegi og það er mjög ánægjulegt að verið er að verja meiri peningum til reiðvega en áður var og þegar ég horfi til framtíðar hljóta að koma hér á Íslandi hjólreiðabrautir eins og gerist erlendis vegna þess að í auknum mæli byggist ferðamennskan á því að menn hjóla.

Við gætum því í rauninni varið hverri einustu krónu sem í ríkiskassann kemur til vegagerðar, það er alveg ljóst. Þetta er í raun og veru það sama og með heilbrigðiskerfið, en þetta eru þær tillögur sem nú eru lagðar fram og ég vildi sjá enn meiri peninga til samgöngumála.