131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:40]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður talar um að Suðurstrandarvegur var ákveðin forsenda fyrir sameiningu kjördæmisins, þ.e. stækkun kjördæmisins, og að sjálfsögðu treysti ég því að Suðurstrandarvegur komi. Ég hef eðlilega ekki fylgst jafnvel með þingstörfum núna sem varaþingmaður eins og þegar ég sat á þingi, þess vegna hef ég ekki verið inni í þeirri vinnu þegar verið var að byggja upp þessa samgönguáætlun.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir að bæði Reykjanesbrautin, sem búið er að breikka og stækka, og það fjármagn sem notað er á Hellisheiðinni þóttu brýnni verkefni en Suðurstrandarvegurinn. Ég og hv. þingmaður þekkjum það sem ökum þessa leið oft — nær daglega ímynda ég mér að hv. þingmaður keyri þessa leið — að Hellisheiðin er ákveðinn flöskuháls og því þarf oft að skoða hvað eru mikilvægustu verkefni hverju sinni. Peningarnir eru afl þess sem gera þarf.

Ég er alveg klár á því, eins og talað hefur verið um, að Suðurstrandarvegur mun koma og hann verður að koma vegna þess að þær væntingar eru byggðar upp á sömu forsendum og væntingarnar um Héðinsfjarðargöngin, sem ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í. Það er gríðarlega dýr framkvæmd, mjög dýr framkvæmd, og ég veit að hún kemur sér vel fyrir þá sem þar búa.

Ég vil líka leggja mikla áherslu á þessar tengingar, t.d. í uppsveitunum. Þegar við erum að tala um sameiningu sveitarfélaga þar er brú yfir Hvítá meginforsenda og við eigum líka að tengja saman uppsveitir Árnessýslu og Rangárvallasýslu, og ég er viss um að hv. þingmaður styður mig í því.