131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:42]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir það. Það liggur sameiningu sveitarfélaga til grundvallar að hægt sé að bæta samgöngur innan svæðanna. Án þess verður ekki raunveruleg sameining og án þess næst ekki fram sá ávinningur sem klárlega er af sameiningu sveitarfélaga og fækkun þeirra, en það er önnur umræða.

En mér finnst ekki rétt að bera saman Suðurstrandarveg sem sérstakri samgönguáætlun vegna kjördæmabreytinga, lofað fyrir mörgum herrans árum, og sjálfsagðar og brýnar vegabætur á Hellisheiði og á Suðurlandsvegi þar sem er verið að hefjast handa við að breikka veginn 2+1 á köflum og lýkur því vonandi, og ég fagna því mjög að það sé komið á samgönguáætlun. Það var meginbaráttumál sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga sameinuðust um að setja í forgang í baráttumálum sínum fyrir samgöngum og ég fagna því mjög, það er gott mál.

En það er einfaldlega ekki rétt að bera það saman við Suðurstrandarveginn og réttlæta það að Suðurstrandarvegur sé í rauninni sleginn af núna um nokkurra ára bil vegna þess að setja eigi 300 milljónir í að lagfæra Hellisheiðina. Sá samanburður er að mínu mati ranglátur og ekki rétt að stilla því þannig upp af því hvernig loforðið um Suðurstrandarveg, fyrirheitin um Suðurstrandarveg eru til komin, sérstök samgönguáætlun vegna kjördæmabreytinganna. Annars er mjög ólíklegt að sá vegur hefði komið til og klárlega hefðu menn áreiðanlega ekki forgangsraðað þannig að það ætti að fara í Suðurstrandarveg á meðan ekki væri búið að tvöfalda Reykjanesbraut og breikka Suðurlandsveg, ég held að það fari enginn í grafgötur með það. Þess vegna er ekki rétt að bera þetta saman. Þessi ákvörðun var tekin vegna kjördæmabreytinganna, ekki vegna forgangsröðunar á milli þessara þriggja stóru verkefna.

Þess vegna ítreka ég að þessi samgönguáætlun á ekki að fara frá þinginu nema sjáist í Suðurstrandarveginn.